Körfubolti

Elvar: Pabbi þjálfaði nokkra af þessum eldri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Már Friðriksson er mættur á sitt fyrsta Evrópumót með íslenska körfuboltalandsliðinu. Hann ræddi við Arnar Björnsson eftir æfingu liðsins í Helsinki í dag.

„Maður er orðinn gríðarlega spenntur að spila leiki. Þetta eru stærstu leikir sem ég hef spilað á ævinni þannig að ég get eiginlega ekki beðið,“ sagði Elvar.

„Það er góð stemmning í mannskapnum og við erum mjög einbeittir. Það er hugur í mönnum og við ætlum að gera vel á þessu móti.“

Elvar segist vera klár í slaginn fyrir átökin á EM.

„Ég er í mjög góðu standi, hef æft vel í sumar og átti mjög góðan vetur þannig að ég ætti að geta barist við þessa kalla,“ sagði Elvar sem spilar með Barry háskólanum í Bandaríkjunum.

Elvar segir að eldri og reyndari mennirnir í landsliðinu taki honum vel.

„Við tengjumst vel. Ég hef verið í kringum þá síðan ég var lítill. Pabbi [Friðrik Ragnarsson] þjálfaði einhverja af þeim og nú fæ ég að spila með þeim. Ég hef þekkt þá lengi og þeir taka mér rosalega vel,“ sagði Elvar.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×