Skoðun

Rússland, Óvinur Evrópu – Fyrri hluti

Ingvar Gíslason skrifar
Þegar sú stund rann upp í sögu Evrópu að Sovétríkin voru formlega lögð niður árið 1991 var ég stjórnmálaritstjóri og leiðarahöfundur dagblaðsins Tímans, aðalmálgagns Framsóknarflokksins. Þess er að minnast að Framsóknarflokkurinn var þá mikilvægt stjórnmálaafl sem lét til sín taka.

Mér er vitaskuld minnisstætt að ég ritaði ýmislegt um þessa þróun heimsmála og fagnaði ekki síst því sem næst stóð að Eystrasaltsþjóðirnar öðluðust sjálfstæði og þjóðfrelsi eftir margra ára innlimun í Sovétríkin. Ekki lét ég undir höfuð leggjast að bera lof á Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra fyrir skörulega framgöngu og frumkvæði þess að Ísland varð í raun fyrst allra vestrænna ríkja til þess að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltslandanna. Mér bjó einnig mjög í hug að benda á, að nú væri að því komið, að vestrænar þjóðir mótuðu skýra stefnu um friðvænleg samskipti við hið nýja Rússaveldi, viðurkenndu þá breytingu sem orðin var í stjórnkerfi þess, líta á þróunina sem upphaf að raunverulegum Evrópufriði, þar sem Rússland fengi viðurkenningu sem Evrópuríki, en ekki litið á það sem einhverja fjarlægja „austurblokk“.

Eðlilegar ríkisþarfir

Til þess að gera slíka friðarstefnu gildandi var að sjálfsögðu nauðsynlegt að virða stöðu og eðlilegar ríkisþarfir Rússlands, sýna því skilning um það sem hlaut að vera því samboðið. Þar kemur margt til greina, m.a. það að króa ekki ríki Rússa af sem landlukt óvinaflæmi. Litháar áttu í snörpum deilum um sambandsslitin við Sovétveldið , en þeir unnu það til friðar að sínu leyti að afmarka skika lands kringum Kaliningrad (Königsberg) sem flotastöð fyrir Rússa!

Allt annað var uppá teningnum hvað varðaði samninga við Úkraínu, þar sem Gorbatsjov sá fyrir það sem nú er orðið, að hatrammar deilur standa um Krímskagann sem Rússaveldi hlaut að vera í mun að ekki væri lokað fyrir aðgang þess að Svartahafi og þær sjóleiðir sem þaðan liggja. Um þetta hef ég ekki fleiri orð að sinni, en bið góðan lesanda að geta í eyðurnar, sjá þróunina í ljósi raunsæis.

En lesandi góður! Nú ætla ég, mér til skemmtunar og þér trúlega til furðu, að venda mínu kvæði í kross. Sú kúvending er vel við hæfi, því allt er þvers og kruss í evrópskri friðarpólitík og býsna fjarlæg því sem ég vonaði á þeirri minnistæðu stund þegar Sovétríkin leystust upp fyrir meira en aldarfjórðungi. Sú von mín brást að ráðandi menn í Evrópu og Bandaríkjunum ynnu það til friðarins að virða Rússland sem stórveldi í Evrópu, hvað sem Sovéttímanum leið. Um þetta er öll von úti. Rússland er nú óvinur Evrópu númer eitt.

Í stað þess að halda áfram að skrifa eins og leiðarahöfundur eða stjórnmálaskýrandi ætla ég að segja sögu af skrýtnum körlum, m.a. drykkfelldum belsebúbum og hrekkjalómum að hætti Íslenskrar fyndni.

Framhald greinarinnar mun birtast síðar undir nafninu Sagan af Jeltsín og Pútín.

 

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×