Enski boltinn

Eigendur Manchester United selja hluti í félaginu fyrir 7,7 milljarða króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel og Avram Glazer eru eigendur Manchester United.
Joel og Avram Glazer eru eigendur Manchester United. Vísir/EPA
Bandarískir eigendur enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United ætla í næstu viku að selja um tvö prósenta hlut í félaginu í kauphöllinni í New York.

Tvö prósent í Manchester United eru virði um 72,89 milljóna dollara eða 7,7 milljarða íslenskra króna.

Manchester United fær ekkert af tekjunum af sölunni á þessum hlutum heldur renna peningarnir beint í vasa Glazer-fjölskyldunnar. Það munu því streyma peningar inn á reikninga fjölskyldunnar í næstu viku.  BBC segir frá.

Glazer fjölskyldan keypti Manchester United fyrir tólf árum síðan á 790 milljónir punda en undanfarið hafa þessir amerísku eigendur verið að selja hluti í félaginu.

Kaupin þeirra voru umdeild og óvinsæl meðal stuðningsfólks Manchester United á sínum tíma og fjölskyldumeðlimir verða ekkert vinsælli eftir að hafa grætt 7,7 milljarða á einu bretti með sölunni á þessum hlutum. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Glazer fjölskyldan fer þessa leið.

Árið 2012 seldi fjölskyldan um tíu prósent af hlutunum í United og hún hefur síðan haldið uppteknum hætti síðustu ár. Eftir söluna í næstu viku þá hefur Glazer fjölskyldan selt samtals um tuttugu prósent af hlutum sínum í Manchester United.

Manchester United hefur verið duglegt á félagsskiptamarkaðnum í sumar og snýr nú aftur í Meistaradeildina eftir árs fjarveru. United er einnig líklegt til að blanda sér á ný í baráttuna um enska meistaratitilinn en liðið hefur ekki verið í hóp þriggja efstu liðanna undanfarin fjögur tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×