Innlent

Vilja að Ísland skrifi undir bann við kjarnorkuvopnum

Hrund Þórsdóttir skrifar
Friðarsinnar fleyttu kertum á Reykjavíkurtjörn og víðar um landið í gærkvöldi til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna í Hírósíma og Nagasakí og árétta kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.

Kertafleytingin fór nú fram í þrítugasta og þriðja sinn, en í ár eru liðin sjötíu og tvö ár síðan kjarnorkusprengjum var varpað á borgirnar Hírósíma og Nagasakí í Japan. Kertafleytingin sem hefð er upprunnin í Japan, en athafnir af þessu tagi fara fram víða um heim og að þessu sinni á þremur stöðum hér á landi; á Akureyri og Ísafirði og við Tjörnina í Reykjavík.

Hundrað tuttugu og tvö aðildarríki Sameinuðu þjóðanna gerðu nýlega sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum og krafa íslenskra kjarnorkuvopnaandstæðinga er að Ísland gerist aðili að samkomulaginu án tafar með því að skrifa undir sáttmálann.

Halla Gunnarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur, flutti ávarp í gærkvöldi og sagði meðal annars að spegla yrði nútíðina í fortíðinni.

„En við erum líka hér til að neita að gleyma undirbúningnum og ákvörðununum sem voru teknar í aðdragandanum. til að setja spurningamerki í hvert sinn sem okkur er tjáð að eitthvað sem við vitum að skaddar fólk sé nauðsynlegt. Annað sé ómögulegt,“ sagði Halla meðal annars.

Í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt má sjá fallegar myndir Egils Aðalsteinssonar, myndatökumanns Stöðvar 2, frá viðburðinum, auk viðtala við þátttakendur í kertafleytingunni. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×