Erlent

Skokkarinn handtekinn fyrir að hrinda konu fyrir strætó

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn virðist hrinda konunni fyrir vagninn.
Maðurinn virðist hrinda konunni fyrir vagninn. Skjáskot
Fimmtugur karlmaður var handtekinn í Bretlandi í morgun vegna gruns um að hafa hrint konu fyrir strætisvagn.

Maðurinn var handtekinn í morgun í Chelsea-hverfi í London, að því er fram kemur í frétt BBC. Lögregla sleppti manninum síðar í dag en rannsókn málsins stendur enn yfir.

Myndskeið úr öryggismyndavélum á Putney-brú í London, þar sem atvikið átti sér stað 5. maí síðastliðinn, var gert opinbert almenningi í von um að sá grunaði fyndist. Viðbrögðin létu ekki á sér standa en lögregluyfirvöld segjast hafa fengið ótrúlega margar vísbendingar vegna málsins.

Konan telur að maðurinn hafi vísvitandi ætlaði að hrinda sér fyrir vagninn. Lögreglan segir konuna hafa fengið smávægilega áverka og að farþegar strætisvagnsins hafi komið henni til aðstoðar.

Þá er skokkarinn sagður hafa hlaupið aftur yfir brúna um 15 mínútum eftir að konan féll. Hún hafi reynt að ná sambandi við manninn sem virti hana ekki viðlits.

Atvikið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×