Erlent

Geit ræður ríkjum í afskektum bæ í Írlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Enginn veit af hverju geit er krýnd á ári hverju í bænum Killorglin.
Enginn veit af hverju geit er krýnd á ári hverju í bænum Killorglin. Vísir/AFP
Næstu daga mun villt fjallageit ráða ríkjum í bænum Killorglin í Írlandi. Íbúar bæjarins handsömuðu geitina og leiddu hana í gegnum bæinn þar sem geitin var krýnd sem Puck konungur. Puck drottningin, skólastúlka úr bænum, krýndi konunginn við hátíðlega athöfn.

Næstu daga munu bæjarbúar halda hátíð í bænum sem talin er vera ein elsta bæjarhátíð Írlands. Hátíðin er það gömul að enginn veit með vissu af hverju geit er krýnd á ári hverju. Ein kenning segir til um að á öldum áður hafi geit flúið til bæjarins undan hermönnum Oliver Cromwell í borgarastyrjöld Bretlands á sautjándu öld.

Samkvæmt frétt Reuters rekja sagnfræðingar þó uppruna hátíðarinnar til átjándu aldar. Blaðamaður Reuters sem fylgdist með athöfninni í dag segir Puck konung hafa verið rólegur og hann hafi jafnvel litið út fyrir að hafa skemmt sér.



Á meðan að hátíðin stendur yfir verður komið fram við konunginn eins og konung þar til honum verður sleppt á laugardaginn.

Hér má sjá myndband frá krýningarathöfninni árið 2014.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×