Innlent

Annarlegt ástand einkenndi nóttina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjölmörg mál komu á borð lögreglu í nótt.
Fjölmörg mál komu á borð lögreglu í nótt. Vísir/Anton Brink
Þrjár konur og einn karl í annarlegu ástandi sáu lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefnum í nótt.

Fyrsta konan sem þurfti að hafa afskipti af í gærkvöld komst í kast við lögin á sjötta tímanum þegar hún var handtekinn grunuðu um þjófnað úr verslun í Kópavogi. Hún var vistuð í fangageymslu lögreglu þar til hægt verður að ræða við hana.

Því næst var komið að karlinum, einnig í annarlegu ástandi, sem var handtekinn á Langanesvegi skömmu fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Hann er grunaður um vörslu fíkniefna og eignaspjöll. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Ekki nema sex mínútum síðar barst lögreglunni tilkynning um konu sem handtekinn var við verslun í Austurstræti. Hún hafði verið staðin að þjófnaði og skemmdi síðan þjófavarnarhlið er hún yfirgaf verslunina. Konan var vistuð í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Það var svo skömmu eftir klukkan 1 í nótt þegar lögreglan handtók konu í „mjög annarlegu ástandi“ á heimili við Sléttuveg þar sem óskað hafði verið aðstoðar vegna óláta. Konan fór ekki að fyrirmælum lögreglu og reyndi að slá til lögreglumanna við afskipti. Konan er einnig grunuð um vörslu fíkniefna og var hún vistuð í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×