Lífið

Rich Piana haldið sofandi í öndunarvél

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rich Piana var meðvitundarlaus þegar sjúkraliðar komu að heimili hans.
Rich Piana var meðvitundarlaus þegar sjúkraliðar komu að heimili hans. Vísir/getty
Vaxtarræktarkappinn og fyrrverandi tengdasonur Íslands Rich Piana var haldið sofandi í öndunarvél í vikunni eftir alvarlegan heilsubrest.

Þetta hefur dægurmálarisinn TMZ eftir lögreglumönnum í Flórídafylki í Bandaríkjunum þar sem Piana býr þessi dægrin. Að þeirra sögn þurftu sjúkraflutningamenn að bregðast við tilkynningu frá heimili kappans á mánudagskvöld. Talið er að útkallið með rekja til of stórs lyfjaskammts. Þegar viðbragðsaðilar mættu á svæðið var Piana meðvitundarlaus og var hann fluttur í snatri á sjúkrahús þar sem honum var haldið sofandi í öndunarvél.

Ekki er vitað hvernig honum heilsast núna en TMZ uppfærir frétt sína um leið og nánari upplýsingar berast.

Piana nýtur töluverðar hylli á samfélagsmiðlum og fylgjast rúmlega milljón manns með ævintýrum hans á Instagram. Nýjasta færsla hans er fyrir 17 klukkustundum síðan og því ekki útilokað að hann sé aftur kominn á fullt í líkamsræktinni. Hann skrifar þó að um gamla mynd sé að ræða - frá þeim tíma sem hann keppti í vaxtarrækt. Þó er heldur ekki hægt að útiloka að einhver annar, til að mynda almannatengill eða fjölmiðlafulltrúi Piana, hafi sett inn færsluna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem heilsufar Rich Piana ratar í fréttinar. Þannig greindi Vísir frá því í desember í fyrra að hann hafi fengið húðkrabbamein. Hann hafði látið fjarlægja nokkra fæðingarbletti og við þá skoðun kom í ljós að Piana hafi verið með krabbamein.

Rich Piana var um tíma giftur vaxtarrætarkonunni Söru Heimisdóttur. Þau gengu í það heilaga í september 2015 en skildu sumarið 2016.


Tengdar fréttir

Rich Piana með húðkrabbamein

Vaxtaræktarkappinn Rich Piana, fyrrverandi tengdasonur Íslands, er með húðkrabbamein en þetta kemur fram í nýjasta myndbandi kappans á YouTube.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×