Erlent

Smástirni þýtur á milli jarðarinnar og tunglsins í október

Kjartan Kjartansson skrifar
Evrópska geimstofnunin birti þessa mynd þar sem smástirnið er merkt með hring.
Evrópska geimstofnunin birti þessa mynd þar sem smástirnið er merkt með hring. ESA
Vísindamenn segja að engin hætta verði á ferðum þegar smástirni á stærð við hús þýtur fram hjá jörðinni 12. október. Smástirnið fer langt inn fyrir braut tunglsins en aðeins utar en fjarlægustu gervitunglin á braut um jörðu.

„Við vitum fyrir víst að það eru engar líkur á að fyrirbærið rekist á jörðina. Það er ekki nokkur hætta,“ segir Detlef Koschny sem starfar við teymi Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) sem fylgist með fyrirbærum í grennd við jörðina.

Smástirnið, sem hefur fengið nafnið 2012 TC4, verður í 44.000 kílómetra fjarlægð þegar það fer fram hjá jörðinni. Það er aðeins einn áttundi af fjarlægðinni á milli jarðarinnar og tunglsins. Sístöðugervitungl eru í um 36.000 kílómetra fjarlægð, að því er segir í frétt á vefnum Phys.org.

Vísindamennirnir áætla að smástirnið sé 15-30 metrar að lengd en það ferðaðist á um fjórtán kílómetra hraða á sekúndu þegar þeir komu auga á það. Það er rúmlega 50.000 km/klst.

ESA segir í yfirlýsingu að heimsókn smástirnisins sé tilvalið tækifæri til að reyna á getu þjóða heims til þess að fylgjast með fyrirbærum sem nálgast jörðina og meta getuna til að bregðast við raunverulegri hættu af smástirnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×