Enski boltinn

Yfirlýsing frá Liverpool: Hundrað prósent öruggt að Coutinho verði áfram hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho á æfingu með Liverpool.
Philippe Coutinho á æfingu með Liverpool. Vísir/Getty
Eigendur Liverpool hafa nú sent frá sér skýra og skorinorða yfirlýsingu vegna allra frétta enskra og spænskra miðla um hugsanlega kaup Barcelona á brasilíska leikmanninum Philippe Coutinho.

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp hefur allan tímann talað hreint út en nú er endanlega ljóst að eigendurnir eru algjörlega sammála honum í þessu máli.

„Við viljum greina frá ótvíræðri afstöðu okkar gagnvart mögulegum félagsskiptum Philippe Coutinho.

Félagið er ákveðið í því að við munum ekki skoða neina tilboð í Philippe og að hann verður áfram leikmaður Liverpool þegar sumarglugginn lokast,“ segir í yfirlýsingunni sem má nálgast hér fyrir neðan.





Enskir og spænskir fjölmiðlar hafa skrifað mikið um áhuga Barcelona á Philippe Coutinho sem átti að fylla í skarð Neymar sem var seldur fyrir metfé til franska liðsins Paris Saint Germain.

Philippe Coutinho er 25 ára gamall og gríðarlega mikilvægur leikmaður í sóknarleik Liverpool. Hann var með 13 mörk og 7 stoðsendingar í 31 leik í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og hefur aldrei skorað meira á tímabili eða gefið fleiri stoðsendingar.

Coutinho kom til Liverpool frá ítalska félaginu Internazionale í ársbyrjun 2013 og hefur vaxið og dafnað hjá félaginu síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×