Innlent

Óskar eftir vettvangsferð í verksmiðju United Silicon

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Einar Brynjólfsson, þingflokksformaður Pírata.
Einar Brynjólfsson, þingflokksformaður Pírata. Vísir/Eyþór
Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fari í vettvangsheimsókn í verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ eins fljótt og auðið er.

„Íbúar þessa ágæta sveitarfélags hafa búið við verulegan skort á lífsgæðum vegna mengunar frá þessari verksmiðju og kalla eftir aðgerðum. Það hlýtur að vera skylda okkar nefndarmanna að kynna okkur aðstæður á vettvangi,“ segir Einar í bréfi til nefndarmanna.

Hann segir að Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, sé tilbúinn að taka á móti nefndinni.

Kísilmálmverksmiðja United Silicon er mjög umdeild og hafa íbúar í Reykjanesbæ meðal annars kvartað undan því að geta ekki notið góða veðursins í sumar vegna lyktarmengunar frá kísilverinu.

Þá þurfti að slökkva tímabundið á brennsluofni verksmiðjunnar vegna þess að bráðinn málmur, 1600 gráðu heitur, flæddi úr ofni verksmiðjunnar með þeim afleiðingum að slöngur og rafmagnskaplar eyðilögðust.

 


Tengdar fréttir

Vilja ekki tjá sig um greiðsluna

Hvorki forsvarsmenn verktakafyrirtækisins Íslenskra aðalverktaka (ÍAV) né kísilvers United Silicon í Helguvík vilja tjá sig um hvort kísilverið sé búið að greiða ÍAV rúman einn milljarð króna í samræmi við niðurstöðu gerðardóms.

Enn óljóst hvernig kísilverið mun borga

Fimm dögum eftir að gerðardómur féll er enn ekki ljóst hvernig United Silicon mun greiða verktakafyrirtækinu ÍAV rúman milljarð króna vegna ógreiddra reikninga kísilversins í Helguvík. Samkvæmt gerðardómi þarf greiðsla að berast í lok næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×