Erlent

Keyrði fram af bílastæðahúsi og féll sjö hæðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Konan sem ók BMW-bílnum lifði fallið af en slasaðist alvarlega.
Konan sem ók BMW-bílnum lifði fallið af en slasaðist alvarlega.
Þann 13. júlí síðastliðinn var William Burch að keyra jeppa sínum í húsasundi í Austin í Texas í Bandaríkjunum þegar hann heyrði skringilegt hljóð og stöðvaði bílinn. Þá lenti BMW í götunni fyrir aftan hann og skoppaði á jeppann hans. Ökumaður hins bílsins hafði keyrt fram af bílastæðahúsi og féll sjö hæðir niður á götuna.

Lögreglan í Austin birti myndband af atvikinu í gær.

Konan sem ók BMW-bílnum lifði fallið af en slasaðist alvarlega, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Burch sakaði ekki en hann var að tala við móður sína í síma þegar slysið varð.

„Ég get rétt ímyndað mér hvað hún var að hugsa þegar ég sagði: Það lenti bíll á mér. Ég þarf að fara,“ sagði Burch við héraðsmiðilinn Kxan.

Konan er sögð hafa stigið á bensíngjöfina fyrir mistök þegar hún ætlaði að bremsa og keyrði hún í gegnum öryggisvíra sem voru á bílastæðahúsinu og lenti á næsta húsi áður en bílinn féll niður í götuna.

Í september í fyrra féll jeppi af níundu hæð sama bílastæðahúss. Sá bíll féll þó ekki í götuna þar sem einn af öryggisvírunum flæktist í honum. Það olli því að bíllinn hékk utan á húsinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×