Erlent

Einn af hverjum átta Bandaríkjamönnum alkóhólisti

Kjartan Kjartansson skrifar
Tæplega 90.000 Bandaríkjamenn látast af völdum sjúkdóma sem tengjast áfengisneyslu á hverju ári.
Tæplega 90.000 Bandaríkjamenn látast af völdum sjúkdóma sem tengjast áfengisneyslu á hverju ári. Vísir/Getty
Áfengissýki hefur vaxið gríðarlega í Bandaríkjunum síðustu áratugi samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Nú fellur einn af hverjum átta Bandaríkjamönnum undir skilgreiningu á alkóhólisma.

Tíðni alkóhólisma jókst um 49% á fyrsta áratugi þessarar aldar samkvæmt rannsókninni sem birtist í tímaritinu JAMA Psychiatry. Höfundar hennar segja alkóhólisma vanrækt lýðheilsuvandamál í Bandaríkjunum. Benda þeir á að hann valdi fjölda sjúkdóma og kvilla eins og fæðingargöllum, hjarta- og æðasjúkdómum, nokkrum tegundum krabbameina og sykursýki 2.

Þeim sem látast úr sjúkdómum eins og skorpulifur og of háum blóðþrýstingi hefur enda fjölgað á sama tímabili. Sjúkdómavarnamiðstöð Bandaríkjanna áætlar nú að 88.000 manns látist á hverju ári af völdums sjúkdóma sem tengjast alkóhólisma, að því er segir í umfjöllun Washington Post um rannsóknina.

Það er tvöfalt fleiri en þeir sem látast af ofneyslu svefn- og deyfilyfja. Donald Trump forseti lýsti yfir lýðheilsuneyðarástandi í vikunni vegna ópíumfaraldursins sem leikur mörg svæði Bandaríkjanna grátt.

Rannsakendurnir skilgreindu þá sem misnota áfengi eða eru háðir því sem alkóhólista. Hlutfall alkóhólisma var hærra á meðal karlmanna (16,7%), frumbyggja (16,6%) og fólks sem lifir undir fátæktarmörkum (14,3%). Nærri einn af hverjum fjórum fullorðnum Bandaríkjamönnum undir þrítugu féllu undir skilgreininguna á alkóhólisma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×