Enski boltinn

Guardiola segir sína menn þurfa að bæta sóknarleikinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guardiola gefur skipanir inn á völlinn í dag.
Guardiola gefur skipanir inn á völlinn í dag. Vísir/Getty
Pep Guardiola var ánægður eftir 2-0 sigur Manchester City á Brighton í lokaleik dagsins í enska boltanum en sagði að sínir menn gætu þrátt fyrir það gert betur í sóknarleiknum.

Það tók gestina frá Manchester 70. mínútur að koma boltanum í netið og brjóta niður nýliðana en stuttu síðar bætti Manchester City við marki og kláraði leikinn. Búið var að dæma tvö mörk af gestunum í upphafi fyrri hálfleiks.

„Það var léttir að ná fyrsta markinu en við fengum fjöldan allra færa fram að því til að skora. Í leikjum gegn liðum sem verjast allir tíu leikmennirnir sem einn þá verður maður að ná fyrsta markinu,“ sagði Guardiola og bætti við:

„Við vorum örlítið hægir í okkar sóknaraðgerðum, við þurfum meiri hraða og ákveðni í sóknarleikinn því við lentum oft í erfiðleikum á útivöllum eins og þessum í fyrra. Okkur gekk vel að loka á þá og ég man bara eftir einu skoti hjá þeim.“

Hann hrósaði vinnusemi sinna manna.

„Við hlaupum á við lið í neðri deildunum þótt að við séum með lið skipað heimsklassamönnum, ég er stoltur af því hvernig allir leggja sig fram í pressunni. Það er fyrsta skrefið í að skapa sóknartækifæri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×