Innlent

Ég man þig sýnd í Læknishúsinu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Úr kvikmyndinni Ég man mig.
Úr kvikmyndinni Ég man mig. Skjáskot af Youtube
Kvikmyndin Ég man þig, sem byggð er á samnefndri bók eftir Yrsu Sigurðardóttur, verður sýnd á söguslóðum í læknishúsinu á Hesteyri í sumar. Skipuleggjandi segir viðburðinn ekki vera fyrir neina vesalinga.

Íslenska hrollvekjan Ég man þig, sem byggð er á vinsælli skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur, var frumsýnd í kvikmyndahúsum við miklar vinsældir í maí.

Á miðvikudag hefjast sýningar á ný en þær verða í sjálfu læknishúsinu á Hesteyri sem er þungamiðja sögusviðsins.

Bíógestir verða fluttir að Hesteyri frá Bolungarvík, þar sem þeirra bíður kvöldverður og sýning. Haldin var prufusýning í gær við góðar undirtektir.

„Þessi ferð er ekkert fyrir neina vesalinga. Hugmyndin er að fólk komi hingað með bát frá Bolungarvík klukkan 18 og komi upp í Læknishúsið í léttan kvöldverð og fari síðan í bíóið. Og eftir myndina, og það er líka spennandi fyrir fólk, röltir það út í myrkrið eitt og sér. Það þarf kjarkmikið fólk í þetta," segir Hrólfur Vagnsson, vertinn í Læknishúsinu.

Frumsýningin verður á miðvikudaginn og verða sýningar næstu tíu daga þar á eftir. Hægt er að bóka á vefsíðu Hesteyris eða með því að hringja í Læknishúsið. Miðarnir kosta fjórtán þúsund krónur með bátsferð, kvöldverð og sýningu.

Hrólfur spáir mögulegri endurkomu höfundarins Yrsu Sigurðardóttur á söguslóðir. „Hún kom hérna í upphafi skrifta á sögunni, að mig minnir í tvígang. Og það er ekkert loku fyrir það skotið að hún mæti á eina sýninguna," segir Hrólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×