Innlent

Lögðu hald á 16 kíló af kókaíni á fyrstu sjö mánuðum ársins

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins og eru um 20 sakamál nú þegar á borði lögreglunnar
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins og eru um 20 sakamál nú þegar á borði lögreglunnar Vísir/Hari
Alls hefur verið lagt hald á um 16 kíló af kókaíni af mismunandi styrkleika á fyrstu sjö mánuðum ársins á Keflavíkurflugvelli og 1.950 ml af fljótandi kókaíni eða um 4.500 grömm í neyslustyrkleika. Talið er að þetta sé mesta magn kókaíns sem lagt hefur verið hald á Keflavíkurflugvelli.

Tollgæslan hefur lagt hald á mun meira magn af fíkniefnum á fyrstu sjö mánuðum ársins 2017 en á sama tíma á síðasta ári. Efnin hafa öll fundist innvortis eða í farangri farþega á leið um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins og eru um tuttugu sakamál nú þegar á borði lögreglunnar. Sakborningarnir í þeim málum voru erlendir ríkisborgarar í nánast öllum tilvikum. Þeir sitja nú í gæsluvarðhaldi. Þá hafa dómar þegar fallið í fimmtán málum og hafa menn verið dæmdir í allt að þriggja og hálfs árs fangelsi.

Einnig voru handlagðir 700 ml af fljótandi amfetamíni en það samsvarar um 6.998 grömmum af efninu í neyslustyrkleika. Þá var lagt hald á 196,5 grömm af metamfetamíni og 0,19 grömm af hassi. Efnin hafa verið gerð upptæk.

„Þetta er töluvert meira heldur en á síðasta ári,“ segir Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hann segist ekki vera með tölfræðina fyrir framan sig en þó sé mest áberandi hversu algengt kókaínið sé orðið til innflutnings enda sé það oftast handlagt.

Þá bendir hann á að þá skipti einnig máli að um breytilegan styrkleika sé að ræða en það geti þýtt að neysluskammtar hvers fíkniefnis geti verið mismunandi þar sem hægt sé að þinna efnið út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×