Innlent

Hakakrossar og hatursorðræða á leiksvæði í Laugardalnum

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Bjarni Már vakti athygli á því á hóp hverfisins á Facebook að búið væri að krota nasista- og hatursáróður á leiktæki í hverfinu.
Bjarni Már vakti athygli á því á hóp hverfisins á Facebook að búið væri að krota nasista- og hatursáróður á leiktæki í hverfinu. Vísir/Eyþór
„Ég hef ekki séð annars staðar neitt svona,“ segir Bjarni Már Magnússon, íbúi í Laugarneshverfi, um veggjakrot sem hann sá á leikvelli í hverfinu.

Bjarni Már vakti athygli á því í Facebookhóp íbúa í Laugarneshverfi að búið væri að krota nasista- og hatursáróður á leiktæki í Laugardalnum. Má þar sjá krot á borð við hakakrossinn sem og hatursorðræðu í garð samkynhneigðra.

Bjarni Már segir að líklega hafi veggjakrotið verið þarna í dágóðan tíma.Bjarni Már
Var á svæðinu ásamt dóttur sinni

Í samtali við Vísi segist Bjarni hafa tekið eftir þessu þegar hann var ásamt dóttur sinni staddur á leiksvæði fyrir ofan gömlu þvottalaugarnar sem jafnan gengur undir nafninu „Ormurinn“. 

„Ég tók nú bara eftir þessu í gær. Dóttir mín var þarna að leika sér og þá rak ég augun í þetta og fór eitthvað að skoða þetta,“ segir Bjarni Már í samtali við Vísi. Hann telur að krotið sé búið að vera þarna í þó nokkurn tíma.

„Þetta virtist hafa verið þarna í einhvern tíma því það var farið að mást aðeins af krotinu, þannig að það hljóta einhverjir aðrir að hafa rekið augun í þetta,“ segir Bjarni.

Í færslu sinni hvetur Bjarni íbúa á svæðinu að senda ábendingar til Reykjavíkurborgar. Töluverð óánægja sé á meðal íbúa vegna veggjakrotsins. Hann segist þó ekki vita hvort að íbúar í hverfinu hafi látið í sér heyra og haft samband við Reykjavíkurborg.

Segir þetta hræðilegt að heyra

Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu hjá Reykjavíkurborg, hafði ekki heyrt af málinu þegar blaðamaður hafði samband við hann en sagði að svona mál fengju yfirleitt skjót svör. Hann nefnir að það sé hræðilegt að heyra að verið sé að koma fram hatursorðræðu á leiksvæðum barna.

Hér má sjá hvar búið er að rita Enga samkynhneigða (e. No gays) inn í eitt leiktækið á svæðinu.Vísir/Eyþór
Hjalti segir að þetta sé í fyrsta skiptið sem mál sem þetta, þar sem hatursorðræða og krot séu til umfjöllunar, komi inn á borð til þeirra. Vanalega sé um „tagg“ og annarskonar einstaklingsmerkingar að ræða.

„Það er voðalega lítið hægt að gera. Það er erfitt að vakta þetta allan sólarhringinn. Það er reynt að mála yfir þetta eins fljótt og mögulegt er. Á hinum endanum má fræða og vinna með fólki til að sporna við þessu,“ segir Hjalti í samtali við Vísi og nefnir að ekki séu einungis ungmenni að krota á veggi og eignir annarra heldur einnig fullorðið fólk.

Hjalti Guðmundsson segir að yfirleitt sé brugðið á það ráð að mála yfir veggjakrot.sérblað
Hvetur íbúa til að hafa samband

Hjalti bendir á að mikilvægt sé að íbúar séu duglegir að hafa samband við Reykjavíkurborg og tilkynna um veggjakrot og önnur skemmdarverk. Hægt sé að hafa samband inn á ábendingarvef Reykjavíkurborgar.

Þar séu ábendingar afgreiddar eins fljótt og mögulegt er. Hjalti nefnir að það taki yfirleitt tvo til þrjá daga til að bregðast við ábendingunum og vinna úr þeim.

Ekki margar ábendingar

Hjalti segir að það sé mismunandi á milli daga og mánaða hvort að þeim berist ábendingar. Hins vegar hafi ekki komið inn margar ábendingar undanfarna mánuði.

Aðspurður hvort að einhverjir staðir séu verr farnir en aðrir af veggjakroti segir Hjalti að miðbærinn sé fremur illa farinn hvað þetta varðar en ekki sé hægt að segja að leiksvæði barna séu sérstaklega slæm. 

Vísir/Eyþór
RÚV greindi frá því um helgina að fullorðið fólk á þrítugs aldri hefði stundað veggjakrot í miðbæ Reykjavíkur. Þar var talað við formann Miðbæjarsamtakanna, Jóhann Jónsson, sem sagði að það yrði að taka upp harðari viðurlög gegn skemmdarverkum sem þessum.

Reykjavíkurborg kemur aðeins nálægt skemmdarverkum sem verða á borgarlandinu sjálfu en ekki hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þá séu þeir jafnframt í sambandi við rekstraraðila og veiti þeim ráð og upplýsingar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×