Lífið

Bar sigur úr býtum í máli gegn útvarpsmanni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Taylor Swift hlaut einn Bandaríkjadal í skaðabætur, táknræna upphæð.
Taylor Swift hlaut einn Bandaríkjadal í skaðabætur, táknræna upphæð. Vísir/afp
Bandaríska söngkonan Taylor Swift hefur unnið mál sitt gegn fyrrverandi útvarpsmanni sem hún sakaði um að hafa káfað á berum rassi sínum í myndatöku. Hún hlaut einn Bandaríkjadal í skaðabætur, eins og krafist var.

Fyrrverandi útvarpsmaðurinn David Mueller káfaði á berum rassi hennar í myndatöku árið 2013 en kviðdómur í Denver í Colorado-ríki í Bandaríkjunum dæmdi málið Swift í vil í dag, að því er segir í frétt TMZ.

Mueller kærði Swift fyrst og sagði ásakanir hennar hafa kostað hann starfið. Hún kærði hann á móti fyrir kynferðisofbeldi. Mueller fór fram á þrjár milljónir dala (um 318 milljónir króna) í skaðabætur en Swift fór fram á að hann yrði dæmdur til að greiða einn dal, táknræna upphæð.

Þá hafnaði kviðdómurinn einnig ásökunum Muellers í garð móður Swift.

„Ég geri mér grein fyrir forréttindunum sem ég hef notið góðs af í lífinu, í samfélaginu og í hæfni minni til að standa undir kostnaði við að verja mig í réttarhöldum á borð við þessi,“ sagði söngkonan í yfirlýsingu sem send var út í dag eftir að kveðinn var upp dómur í málinu.

„Ég vona að ég geti hjálpað þeim, í hverjum raddirnar eiga líka að heyrast. Þess vegna mun ég láta fé af hendi rakna til nokkurra stofnanna, sem aðstoða þolendur kynferðisofbeldis við að verja sig, í náinni framtíð.“


Tengdar fréttir

Máli útvarpsmanns gegn Taylor Swift vísað frá

Skortur á sönnunargögnum var ástæða þess að kæru fyrrverandi útvarpsmanns gegn Taylor Swift vegna atvinnumissins var vísað frá í gær. Swift hefur sakað útvarpsmanninn um að hafa káfað á afturenda sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×