Innlent

Kókaínflóð á fíkniefnamarkaði til marks um góðæri á Íslandi

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Það sem af er ári hefur gríðarlegt magn kókaíns verið haldlagt á Keflavíkurflugvelli miðað við fyrri ár. Myndin er sviðsett.
Það sem af er ári hefur gríðarlegt magn kókaíns verið haldlagt á Keflavíkurflugvelli miðað við fyrri ár. Myndin er sviðsett. vísir/haraldur
Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hefur lagt hald á næstum jafnmikið magn af kókaíni á fyrstu sjö mánuðum ársins og lögregla og tollgæsla lögðu hald á árin fjögur þar á undan til samans. Ljóst er að eftirspurnin er mikil þar sem smyglarar hafa verið stöðvaðir með hátt í 21 kíló af kókaíni við komuna til landsins á árinu. Kókaín er eitt dýrasta fíkniefnið á markaðnum en algengt er að grammið sé selt á allt að 18 þúsund krónur. Lögregla segir árið í ár hafa verið einsleitt þar sem kókaín sé nánast það eina sem reynt er að smygla og meira sé af því í umferð en oft áður.

Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá því á dögunum að á fyrstu sjö mánuðum ársins hefði tollgæslan lagt hald á alls 20,7 kíló af kókaíni af mismunandi styrkleika og formi. Efnin hafa öll fundist við tollleit á erlendum einstaklingum, ýmist í farangri eða innvortis.

Haldlagt magn kókaíns á Íslandi hefur aukist.
Til samanburðar þá lagði lögregla og tollgæsla hald á rúm átta kíló af kókaíni allt árið í fyrra, 9,7 kíló árið 2015 og 1,7 kíló árið 2014. Óhætt er því að tala um verulega sprengingu í þessum efnum það sem af er ári enda stefnir í algjört metár.

Ekki hefur verið lagt hald á viðlíka magn af kókaíni og í ár á einu ári í fjórtán ár, miðað við afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra sem Fréttablaðið skoðaði aftur til ársins 2003.

Ef miðað er við algengt söluverð á grammi af kókaíni í dag, sem er á bilinu 16 til 18 þúsund krónur, mætti áætla að götuvirði efnanna sem haldlögð hafa verið það sem af er ári sé á bilinu 330 til 372 milljónir króna.

„Þetta er mun meira af kókaíni en áður og hefur verið einsleitt og sérstakt ár að því leyti. Þetta er nánast bara kókaín,“ segir Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hann segir að hver og einn verði að draga sínar ályktanir af því hvort verið sé að framleiða hin efnin í meiri mæli hér eða þau fari eftir öðrum leiðum, en ekkert haldbært liggi fyrir í því.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að þar á bæ hafi menn tekið eftir þessari uggvænlegu þróun.

„Já, ég get staðfest að í okkar störfum verðum við vör við að það er meira af kókaíni í umferð en áður.“

Kókaín hefur það orð á sér að vera ákveðið lúxusfíkniefni sökum þess hversu dýrt það er og mætti því segja það ákveðinn góðærismælikvarða.

„Það er þannig að árið 2007, þegar vel gekk hjá okkur efnahagslega, urðum við vör við aukningu í notkun kókaíns,“ segir Grímur.

Tölurnar virðast staðfesta þessa þróun þó sveiflur hafi verið í haldlögðu magni milli ára. Lagt var hald á töluvert magn ár hvert frá 2006-2008 eins og sjá má á meðfylgjandi töflu. Heldur dró síðan úr magni kókaíns árin eftir það en augljósa uppsveiflu má síðan greina frá árinu 2015. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×