Skoðun

Tryggjum hlut kvenna á framboðslistanum

Árni Árnason skrifar
Hin svokallaða blandaða leið, sem Vörður - fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík - leggur fyrir fulltrúaráðsfund í næstu viku, hefur það að meginmarkmiði að tryggja hlut kvenna á lista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík.

Í þeim prófkjörum sem haldin hafa verið undanfarið höfum við enga tryggingu haft fyrir því hversu margar konur gefa kost á sér, eða hvernig þær konur sem bjóða sig fram skila sér á listanum. Til vitnis um það má nefna dapurlegt dæmi úr Kraganum, í prófkjörinu fyrir síðustu alþingiskosningar, þar sem fjórir karlmenn röðuðu sér í efstu sæti listans en engin kona.

Afleiðing þessarar óheppilegu niðurstöðu var sú að stórum hluta stjórnar Landssambands sjálfstæðiskvenna var svo misboðið að þær sögðu sig úr Sjálfstæðisflokknum. Með blönduðu leiðinni mun kjörnefnd tryggja að þessi sorgarsaga endurtaki sig ekki, enda mun nefndin sjá til þess að á listanum sé jafnt hlutfall kvenna og karla. Það sýndi sig árið 2002 þegar að svipaðri aðferð var beitt við röðun á lista að þar var hlutur kvenna veglegur.

Það sætir því furðu að formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, sjái sig nú knúna til að fara fram á ritvöllinn, með grein í Fréttablaðinu í dag, og gagnrýna leiðina sem einmitt á að skila konum jöfnum hlut á við karla á framboðslistanum.

Ég hvet þá sem vilja veg kvenna sem mestan á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar til að styðja blönduðu leiðina. Sú leið snýst einmitt um það að leiðtoginn er kjörinn í opnu prófkjöri þar sem allir flokksbundnir sjálfstæðismenn hafa þátttökurétt. Að því loknu mun uppstillingarnefnd, sem einnig er kjörin af hátt í 2000 fulltrúaráðsmeðlimum í Reykjavík, raða upp á listann frambærilegum konum og körlum.

Höfundur er stjórnarmaður í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.

 




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×