Enski boltinn

Vill Ronaldo fara aftur til Englands?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
„Ég lenti aldrei í svona vandræðum á Englandi. Þess vegna vil ég fara aftur þangað.“

Þetta á Cristiano Ronaldo að hafa sagt í réttarsal á Spáni í upphafi vikunnar samkvæmt heimildum Sky Sports. Ronaldo var þá að svara til saka vegna ásakana um stórfelld skattsvik.

Ronaldo er sakaður um að hafa skotið 1,8 milljörðum króna undan skatti á Spáni í gegnum aflandsfélög á Bresku Jómfrúareyjunum.

Hann mun hafa sagt fyrir rétti að hann hafi greitt meira í skatt á Spáni en hann ætti að gera síðan hann flutti þangað fyrir átta árum síðan.

Sjálfur hefur Jose Mourinho, stjóri Manchester United, sagt að það væri ómögulegt að fá Ronaldo aftur til félagsins þar sem Portúgalinn sló fyrst í gegn. United seldi hann til Real Madrid á sínum tíma.

Ronaldo skrifaði undir nýjan fimm ára samning í nóvember en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann er orðaður við endurkomu til Englands eftir að hann var ásakaður um skattsvik fyrr í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×