Erlent

Maður í bílsætisbúningi ók „sjálfkeyrandi“ bíl

Kjartan Kjartansson skrifar
Ökumaðurinn hélt neðarlega á stýrinu og var dulbúinn sem bílsæti.
Ökumaðurinn hélt neðarlega á stýrinu og var dulbúinn sem bílsæti. Skjáskot/Twitter/Adam Tuss
Bíll sem virtist vera algerlega sjálfkeyrandi vakti töluverða athygli í borginni Arlington í Virginíuríki í Bandaríkjunum um helgina. Maðkur var þó í mysunni því maður sem var dulbúinn sem bílsæti reyndist vera við stýrið.

Yfirvöld í Virginíu höfðu nýlega gefið út leyfi til tilrauna með sjálfkeyrandi bíla. Þeir eru þó enn á frumstigi og eru tilraunirnar bundnar við takmörkuð svæði.

Því brá mörgum í brún þegar þeir sáu bíl aka um stræti Arlington án ökumanns. Kröfur hafa verið gerðar um að manneskja sé í sjálfkeyrandi bílum til að grípa í taumana ef eitthvað fer úrskeiðis.

Í myndbandi The Guardian hér fyrir neðan má sjá bílinn „sjálfkeyrandi“ á ferð um Arlington.

Fréttamaður NBC í Washington-borg elti bílinn uppi. Þegar hann náði í skottið á honum og reyndi að taka myndir innan úr honum brá honum í brún þegar hann sá mennskan ökumann undir stýri dulbúinn sem bílsæti.

Í ljós kom að maðurinn var á vegum Tækniháskólans í Virginíu. Talsmenn skólans sögðu að maðurinn hafi verið að safna gögnum um sjálfkeyrandi bíla. The Guardian segir líklegt að hann hafi verið að kanna viðbrögð ökumanna við sjálfkeyrandi bíl á götunum.

Í tísti fréttamanns NBC Washington hér fyrir neðan má sjá ökumanninn dulbúinn sem bílsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×