Innlent

Ýmis eiturefni ástæða fiskadauðans

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sterk eiturefni eru talin ástæða þess að fiskurinn drapst.
Sterk eiturefni eru talin ástæða þess að fiskurinn drapst. Mynd/Egill
Talið er að eiturefni hafi borist í Varmá um regnvatnslagnir sem taka ofanvatn eða regnvatn í niðurföllum á götum og lóðum. Líklegustu efnin eru skordýraeitur, plöntueitur, sveppaeitur, klór, ammoníak og sterk þvottaefni, að því er segir í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis.

Eftirlitið hefur undanfarna daga reynt að finna út uppsprettu mengunar í Varmá, en hún varð til þess að fiskar í ánni drápust.

Í tilkynningunni segir að í einhverjum tilvikum geti niðurföll í bílskúrum og heitir pottar verið tengdir inn á regnvatnskerfið og efni þaðan borist í Varmá. Þá geti ammoníak meðal annars komið við útskolun á skítahaugum og rotþróm. Mengunin hafi mögulega komið frá svæðinu beggja vegna Varmár sunnan Reykjalundarvegar að Skammadalsvegi.

Heilbrigðiseftirlitið biður þá sem mögulega kunna að hafa upplýsingar um mengunarvald í Varmá frá 13. til 14. júlí að hafa samband við Heilbrigðiseftirlitið. Mikilvægt sé að finna orsök fiskadauðans svo hægt sé að koma í veg fyrir að svona atburður endurtaki sig.

„Þá biður Heilbrigðiseftirlitið íbúa Mosfellsbæjar almennt um að gæta að því að niðurföll í götum og á plönum utan við hús og í sumum tilfellum í bílskúrum og frá heitum pottar eru tengd við regnvatnskerfið. Öll mengandi efni sem notuð eru og lenda ofan í þessum niðurföllum geta endað í viðkvæmum viðtökum og valdið tjóni á lífríkinu eins og dæmin sanna. Ef tjöruhreinsa á bíla ætti að gera það á þvottastöðvum eða á bensínstöðvum, ekki við heimahús,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×