Enski boltinn

Chicharito kemur á Laugardalsvöllinn | West Ham keypti hann í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Hernandez í leik með Manchester United.
Javier Hernandez í leik með Manchester United. Vísir/Getty
West Ham hefur náð samkomulagi við þýska félagið Bayer Leverkusen um að kaupa mexíkóska framherjann  Javier Hernandez.

Lundúnafélagið borgar Leverkusen sextán milljónir punda fyrir hinn 29 ára gamla Javier Hernandez. BBC segir frá.

Javier Hernandez, oftast kallaður Chicharito, mun nú fljúga til London til þess að gangast undir læknisskoðun.

Þetta verður í annað skiptið sem  Javier Hernandez reynir fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði 59 mörk í 156 leikjum með Manchester United frá 2010 til 2015.

West Ham er líka langt komið með að kaupa austurríska framherjann Marko Arnautovic frá Stoke City en félagið mun væntanlega borga 24 milljónir punda fyrir hann og ganga frá kaupunum á næstu 48 klukkutímum.

Arnautovic er 28 ára gamall og kom til Stoke frá Werder Bremen fyrir fjórum árum. Hann er aðeins búinn með eitt ár af fjögurra ári samningi við Stoke.

Chicharito skoraði 39 mörk í 76 leikjum með Bayer Leverkusen en hann spilaði tvö tímabil með liðinu. Hann hefur einnig spilað með spænska stórliðinu Real Madrid og er markahæsti landsliðsmaður Mexíkó frá upphafi.

West Ham stendur í stórræðum þessa dagana því liðið gekk fyrr í vikunni frá eins árs lánsamningi á Joe Hart frá Manchester City.

Javier „Chicharito“ Hernandez verður því væntanlega með West Ham á móti Manchester City 4. ágúst næstkomandi þegar liðin mætast í vináttuleik á Laugardalsvellinum en það er síðasti undirbúningsleikur félaganna fyrir komandi tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×