Innlent

Vonsvikin með rannsókn Stígamóta

Sæunn Gísladóttir skrifar
Guðrún Jónsdóttir mun taka aftur við hlutverki talskonu Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir mun taka aftur við hlutverki talskonu Stígamóta. Vísir/Daníel
„Það kemur mér ekki á óvart að hún hafi afgreitt þetta svona,“ segir Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, fyrrverandi starfskona Stígamóta, um það að Guðrún Jónsdóttir muni taka aftur við hlutverki talskonu Stígamóta.

Helga steig fram og lýsti upplifun sinni af ofbeldi og einelti á vinnustaðnum í síðasta mánuði, í kjölfarið stigu níu aðrar konur fram, og steig þá Guðrún til hliðar á meðan fram fór sálfélagslegt áhættumat til að greina ástandið á vinnustaðnum.

Í tilkynningu frá Stígamótum segir að stjórn og starfshópur hafi tekið þessa umræðu um neikvæða starfsupplifun af fyllstu alvöru. Leitað var til vinnustaðasálfræðinga, Vinnueftirlitsins og vinnustaðalögfræðinga og ákveðið var að fylgja í einu og öllu ráðleggingum þeirra um fagleg vinnubrögð.

Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, fyrrverandi starfskona Stígamóta.
Helga gagnrýnir þó meðferð málsins. „Þessi samtök ættu að vita það allra best að þú rannsakar ekki brot án þess að tala við brotaþola eða fá þeirra sjónarmið. Það var ekki mér vitandi talað við neina brotaþola á meðan á rannsókninni stóð.“

„Það eru vonbrigði að samtök sem vinna með þolendum ofbeldis allan daginn geti ekki tæklað það þegar kemur upp innan þeirra eigin veggja ásökun um ofbeldi. Ég hefði haldið að það væri þeim til sóma að þau af öllum ættu að taka raddir brotaþola alvarlega,“ segir Helga.

„Ég var nýbúin að senda þeim tölvupóst og spyrja hver tæki út þessa úttekt og hvort yrði talað við mig eða fyrri starfskonur og ég fæ engin svör við því og svo kemur bara þessi tilkynning í gær, þeir ætla bara að loka þessu svona,“ segir Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×