Innlent

Borgarholtsskóli vill nýtt listahús

Sæunn Gísladóttir skrifar
Borgarholtsskóli býður upp á fjölbreytt listnám.
Borgarholtsskóli býður upp á fjölbreytt listnám. vísir/pjetur
Listgreinar hafa vaxið að vinsældum hjá Borgarholtsskóla og vill skólinn nú byggja séraðstöðu fyrir greinarnar. Í byrjun sumars sendi skólinn erindi til menntamálaráðuneytisins um uppbyggingu kennsluaðstöðu fyrir skapandi greinar.

„Aðsókn í listnám hefur verið að aukast töluvert hjá okkur í Borgarholtsskóla. Það er búið að vera mjög vinsælt og búið að sprengja utan af sér hjá okkur,“ segir Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla. Skráðir nemendur í listnámi eru í dag 167 talsins.

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla.vísir/gva
„Við höfum sent óskir um að fá hreinlega að huga að byggingu listaskóla. Við erum meðal annars með leiklist, kvikmyndagerð og grafíska hönnun. Það er búin að vera sprenging í atvinnulífinu í kvikmyndageiranum, meðal annars vegna Baltasars Kormáks og allra kvikmyndanna sem hafa verið teknar hér á landi. Unga fólkið sér þarna tækifæri og sækir um í þetta nám,“ segir Ársæll.

„Við erum eins og aðrir að kenna þetta í skóla sem var byggður til að kenna bóklegar greinar,“ segir hann. 

Búið er að breyta hefðbundnum kennslustofum í myndver, leiksvið, myndlistar- og hönnunarstofu, með litlum möguleikum á að koma fyrir nauðsynlegum tækjabúnaði, meðal annars vegna stærðar og lofthæðar. Engar geymslur né pláss eru fyrir leikmyndir, leikmuni, búninga, ljósaborð, teiknitrönur eða annað nauðsynlegt. Pláss er á lóð skólans fyrir húsnæði sem þetta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×