Innlent

Fóru með kerru fulla af vörum út úr Nettó-verslun án þess að borga

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynnt var um aðila að selja fíkniefni á Laugavegi á öðrum tímanum í nótt.
Tilkynnt var um aðila að selja fíkniefni á Laugavegi á öðrum tímanum í nótt. vísir/eyþór
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók um miðnætti aðila af erlendum uppruna sem komu að Nettó-versluninni við Fiskislóð á Granda, tóku þaðan ófrjálsri hendi innkaupakerru fulla af vörum og fóru út án þess að borga fyrir. Í dagbók lögreglu segir að mennirnir hafi verið handteknir nokkru síðar og séu vistaðir í fangaklefa.

Tilkynnt var um eld í íbúð í Laufengi í Grafarvogi skömmu eftir miðnætti en þar reyndist enginn eldur heldur hafi pottur hafði gleymst á hellu og mikill reykur myndast af þeim sökum.

Í dagbók lögreglu segir einnig að á öðrum tímanum í nótt hafi verið tilkynnt um aðila að selja fíkniefni á Laugavegi og var hann handtekinn nokkru síðar.

Þá var tilkynnt um bíl sem hafði verið skilinn eftir á slæmum stað á Nýbýlavegi í Kópavogi skömmu fyrir klukkan tvö í nótt. Tveir aðilar voru handteknir og fluttir í fangaklefa, en þeir voru grunaðir um ölvun við akstur. Báðir neituðu að hafa ekið bílnum.

Um hálf fjögur var tilkynnt um aðila vera brjóta bílrúðu í miðbænum. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Um hálf fimm var tilkynnt um slagsmál í miðbænum en þar hafði einn verið rotaður sá var færður á slysadeild. Gerendur voru handteknir og vistaðir í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×