Innlent

Þrír hundar í vinnu hjá Sóltúni

Sæunn Gísladóttir skrifar
Jóhanna ásamt Mónu Lísa og föður sínum Sævari sem er íbúi Sóltúns.
Jóhanna ásamt Mónu Lísa og föður sínum Sævari sem er íbúi Sóltúns. Vísir/Vilhelm
Hundurinn Monsa, fimm ára Toy Poodle, fékk í vikunni starfsmannakort frá hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Hundurinn sem er í eigu Stefaníu Svavarsdóttur hefur mætt með henni til vinnu í rúmt ár.

Monsa er þriðji hundurinn til að fá starfsmannakort, en fyrir eru chihuahua-tíkurnar Móna Lísa og Sunna Dís sem mæta með eiganda sínum, Jóhönnu Bjarndísi Sævarsdóttur. Hundasamfélagið greindi fyrst frá þessu.

„Móna koma til mín á annan á hvítasunnu í fyrra af slæmu heimili og fór fljótlega að koma með mér í vinnuna því ég vildi ekki skilja hana eftir með hinum hundunum. Þetta var upphaflega  til að hjálpa henni að treysta fólki,“ segir Jóhanna. Hún er sjúkraliði og verkefnastjóri og hefur unnið á Sóltúni í þrettán ár.

„Móna á sér hundakerru sem hún sefur í á morgunfundi, svo lúrir hún á meðan fólk er í baði en svo vekur hún íbúa. Ég hjálpa henni upp í og hún knúsar og kyssir íbúana. Hún tekur þátt í öllu á deildinni, hún labbar milli læranna á fólki og sefur hjá fólkinu,“ segir Jóhanna.

Hún segir íbúa fá ofboðslega mikið út úr hundinum. „Fólk sem hefur ekki einu sinni verið almennt fyrir dýr, það lifnar bara við. Það eru margir með Alzheimer og eru ekki kannski mikið fyrir að spjalla en geta setið og hún liggur í fanginu á þeim og þau muna að klappa. Þau sækja í að klappa hundinum.“

Nokkrum mánuðum eftir að Móna fór að fara í heimsókn eignaðist Jóhanna Sunnu Dís sem kom einnig úr slæmum aðstæðum. „Þær skiptast á að koma, þær fá vaktaplan,“ segir hún og hlær.

„Sunna labbar hér um og fylgir fólkinu niður ef það er að fara í sjúkraþjálfun eða iðjuþjálfun. Íbúar biðja um að fá hundinn með. Hún fylgir yfirleitt fólkinu í daglegar athafnir.“

„Þeir sem eru með kvíða, það hefur hjálpað þeim ofboðslega að hafa hundana í fanginu og þau gleyma sér og líður miklu betur. Við Móna Lísa unnum hér aðfangadagskvöld það var himneskt. Þetta er oft erfiður tími fyrir aldrað fólk en ég er 100 prósent á því að hún gaf mikið af sér,“ segir Jóhanna að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×