Innlent

Ótti við kóngulær varð að óviðráðanlegri fælni: „Ég byrjaði að skjálfa, gráta og kastaði jafnvel upp“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Grínistinn Bylgja Babýlons steig nýlega fram og sagði frá erfiðri glímu sinni við kvíða og ofsalega fælni.
Grínistinn Bylgja Babýlons steig nýlega fram og sagði frá erfiðri glímu sinni við kvíða og ofsalega fælni. Vísir/Ernir
Bylgja Babýlons, grínisti og leikkona, hefur glímt við kvíðaröskun síðan hún var barn. Kvíðaröskun Bylgju hefur birst í mörgum formum en á fáeinum mánuðum varð smávægilegur ótti við kóngulær að óviðráðanlegri fælni. Fælnin heltók líf Bylgju, sem var hætt að geta sofið vegna óttans og kastaði jafnvel upp þegar hún kom auga á kónguló, þangað til vinkona hennar fékk hana til að leita sér hjálpar.

Greind með kvíða sem barn og veiktist aftur á þrítugsaldri

Bylgja var fyrst greind með kvíðaröskun 8 eða 9 ára. Hún sótti í kjölfarið tíma í samtalsmeðferð hjá geðlækni og var sett á kvíðastillandi lyf. Bylgja var á lyfjunum fram á unglingsaldur en þá tóku við nokkur kvíðalaus ár. Þegar Bylgja var 24 ára gerði kvíðinn aftur vart við sig.

„Ég hélt að ég væri læknuð þar til ég varð 24 ára og fékk kvíðakast og endaði hjá sálfræðingi. Það var erfitt að sætta sig við að ég hefði ekki læknast og að þessi sjúkdómur myndi fylgja mér allt lífið að einhverju leyti,“ segir Bylgja í samtali við Vísi en hún greindi fyrst frá baráttu sinni við kvíða og ofsafælni í stöðuuppfærslu á Facebook.



Smávægilegur ótti varð að óviðráðanlegri fælni

Á fullorðinsárum þróaðist kvíðinn yfir í ótta við kóngulær og á skömmum tíma varð þessi ótti að ofsalegri og óviðráðanlegri fælni.

„Mér hefur alltaf verið illa við köngulær, sem er frekar algent held ég. Ég get eiginlega ekki rakið hvernig það fór úr smávægilegum ótta yfir í óviðráðanlega fóbíu. Það gerðist svo hratt og á örfáum mánuðum var fóbían farin að stjórna lífi mínu,“ segir Bylgja sem hefur þurft að leggja hart að sér í bataferlinu.

„Fælnin læknast ekkert á einum degi. En ég er hætt að æla og spritta á mér handleggina ef ég sé til köngulóar.“

Skalf, grét og kastaði upp þegar hún kom auga á kónguló

Bylgja segir ömurlegt viðhorf til fælni ráðandi í íslensku samfélagi. Hún segir fólk hafa afskrifað veikindi sín sem „aumingjaskap“ og þá var algengt að gert væri grín að henni. Þegar líkamleg einkenni fælninnar létu á sér kræla hafi þó orðið ljóst að um væri að ræða eitthvað annað og meira en barnalegan ótta við pöddur.

„Fólk var mjög duglegt að minna mig á að íslenskar kóngulær eru hættulausar. Ég er auðvitað fullkomlega meðvituð um það. Skilgreining á fóbíu er einmitt ótti við eitthvað sem er ekki raunveruleg ógn,“ segir Bylgja.

„Mörgum fannst þetta bara aumingjaskapur og barnalegt og flestir gerðu grín að þessu. Ég var sjálf meðvituð um hversu fáránlegt þetta var en ef ég lenti í því að sjá kónguló réð ég ekki við líkamlegu einkennin, ég byrjaði að skjálfa, gráta og kastaði jafnvel upp.“



Bylgja segir viðhorf almennings til fælni á villigötum. Fólk átti sig ekki á því að í fælni felist einmitt ótti við eitthvað sem er ekki raunverulegt og að fælnisjúklingar geri sér yfirleitt grein fyrir því.Vísir/Jónína Guðbjörg
Gerði daglegar skoðanir með vasaljósi og heimagerðri eldvörpu

Bylgja ákvað að leita sér hjálpar þegar vinkona hennar benti á að staðan væri alvarleg. Bylgja hóf því að sækja sálfræðitíma hjá Kvíðameðferðarstöðinni en kóngulóarfælnin hafði gjörsamlega heltekið líf hennar. Þá höfðu sjálfsvígshugsanir byrjað að leita á hana vegna stöðugra kvíðakasta.

„Það voru stundum að líða þrír sólahringar án þess að ég svæfi vegna þess að ef ég sofnaði dreymdi mig kóngulær. Ég gerði daglegar skoðanir á heimili mínu með vasaljósi til að fullvissa mig um að þær væru ekki inni hjá mér,“ segir Bylgja.

„Ég hreinsaði veggina utan á húsinu með heimagerðri eldvörpu, hárspreybrúsa og kveikjara, svo þær væru ekki að koma inn þegar ég opnaði dyrnar. Ég upplifði stanslaus kvíðaköst og sjálfsvígshugsanir. Það var bara komið nóg og vinkona mín benti mér á það.“

Umræðan stórbætt en þó enn á villigötum

Opinská umræða um andleg veikindi hefur verið nokkuð áberandi upp á síðkastið, sérstaklega með tilkomu samfélagsmiðla. Bylgja segir þessa umræðu stóran þátt í því að hún hafi ákveðið að stíga fram og segja frá glímu sinni við kvíða og fælni.

„Það er klárlega meiri sátt í samfélaginu. Ég minntist ekki á þessi andlegu veikindu mín við neinn fyrr en ég varð 25 ára eða svo. Fram að því var þetta vandræðalegt leyndó sem maður átti að skammast sín fyrir.“

Bylgja bendir þó sérstaklega á að viðhorf almennings til kvíða sé á villigötum.

„Fólk á það til að nota orðið kvíði yfir daglegar áhyggjur og stress og lýsir því jafnvel yfir að það sé kvíðasjúkt þegar það er stressað. Mér finnst það gera lítið úr sjúkdómnum ofsakvíða.“

Eftir viðtalsmeðferðir, sálfræðitíma, námskeið og hreinskilin samtöl við vini segist Bylgja þó vera í þokkalegu jafnvægi eins og staðan er í dag.

„Ég fæ alveg kvíðaköst annað slagið en svona þess utan er ég sultuslök. Það datt könguló á mig um daginn og ég kveikti ekki í neinu. Þetta snýst um litlu sigrana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×