Innlent

Þurfa nauðsynlega blóð fyrir verslunarmannahelgi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikil eftirspurn er eftir öllum blóðflokkum í Blóðbankanum um þessar mundir.
Mikil eftirspurn er eftir öllum blóðflokkum í Blóðbankanum um þessar mundir. Vísir/Getty
Blóðbankinn kallar enn eftir hjálp blóðgjafa en skortur er á blóði í bankanum. Jórunn Frímannsdóttir, deildarstjóri blóðsöfnunar hjá Blóðbankanum, segir stöðuna enn alvarlega þrátt fyrir að fluttar hafi verið fréttir af ástandinu í gær.

Jórunn var gestur Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær en hún sagði skort í birgðasafni Blóðbankans mega rekja til sumarleyfa. Þá hefur notkun á blóði einnig verið mikil undanfarnar vikur en hún segir mikilvægt að lagerinn stækki fyrir verslunarmannahelgina

„Staðan er þannig að okkur vantar alveg enn þá mjög mikið blóð. Blóðgjafar mega enn taka við sér, betur má ef duga skal, og við stöndum frammi fyrir því að við þurfum að vera dugleg næstu daga og næstu vikur,“ segir Þórunn í samtali við Vísi.

Hún segir heimsóknir blóðgjafa í Blóðbankann aðeins tíðari en venjulega í dag en enn sé sár vöntun á blóði. Þau hjá Blóðbankanum ætli því að reyna að freista blóðgjafa með kræsingum.

„Við ætlum, til að reyna að koma til móts við blóðgjafa, að grilla pylsur á morgun og svo ætlum við að reyna að bjóða upp á ís á fimmtudaginn í sólinni. Við hvetjum alla blóðgjafa til að koma í heimsókn,“ segir Jórunn.

Hún leggur áherslu á að mikil eftirspurn sé eftir öllum blóðflokkum og hvetur blóðgjafa, nýja jafnt sem gamalreynda, til að heimsækja Blóðbankann að Snorrabraut 60 í Reykjavík í vikunni.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Jórunni í Reykjavík síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×