Enski boltinn

Von hjá Manchester United að fá Gareth Bale

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale.
Gareth Bale. Vísir/Getty
Manchester United hefur í langan tíma verið á eftir velska knattspyrnusnillingnum Gareth Bale og nú hefur smá gluggi opnast samkvæmt nýjustu fréttum frá Spáni.

Telegraph fer yfir stöðu mála og af hverju ný von hefur vaknað innan raða Manchester United um að ná nú loksins að kaupa Gareth Bale.

United hefur verið á eftir Bale í áratug en félagið reyndi fyrst að kaupa hann árið 2007 eða áður en Bale fór til Tottenham. Manchester United reyndi líka að „stela“ honum af Real Madrid þegar spænska félagið keypti hann frá Spurs sumarið 2013.

Nú hefur smá von vaknað í herbúðum Manchester United. Zinedine Zidane, þjálfari Real Madrid, sagði nefnilega að hann gæti ekki ábyrgst það að Gareth Bale yrði með Real-liðinu á komandi tímabili.

Real Madrid er að reyna að kaupa franska undrabarnið Kylian Mbappe frá Mónakó en hann gæti kostað spænska félagið 161 milljón punda.

Fjölmiðlamenn á Spáni hafa vissulega velt fyrir sér framtíð þeirra Karim Benzema og Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid en það lítur út fyrir það í dag að þeir verði áfram en að mestar líkur séu að Real Madrid selji hinsvegar Bale.

Real Madrid hefur þegar selt leikmenn fyrir í kringum 90 milljón pund í sumar en félagið þarf að fá meiri pening inn ætli menn á Bernabeu að ná að safna fyrir kaupunum á Mbappe.

Manchester United hefur verið á eftir Króatanum Ivan Perisic hjá Internazionale en félagið hefur ákveðið að blanda sér ekki í kapphlaupið um Neymar eða Alexis Sanchez.

Líklegt er að Nemanja Matic komi til félagsins frá Chelsea en eftir stendur að knattspyrnustjórinn Jose Mourinho vill fá nýjan háklassa vængmann á Old Trafford. Bale passar fullkomlega i það form.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×