Innlent

Enn eldast grunnskólakennarar

Jakob Bjarnar skrifar
Meðalaldur grunnskólakennara hækkar og hækkar.
Meðalaldur grunnskólakennara hækkar og hækkar. mynd/gettys
Haustið 2000 var meðalaldur starfsfólks við kennslu 42,2 ár en var 46,8 ár haustið 2016. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar en þar segir að meðalaldur starfsfólks við kennslu í grunnskólum hefur farið hækkandi frá árinu 2000.

„Á þessu tímabili hefur meðalaldur kvenkennara hækkað meira eða úr 41,8 árum í 46,9 ár. Meðalaldur karlkennara hefur hækkað úr 43,6 árum í 46,3 ár. Meðalaldur starfsfólks við kennslu án réttinda er töluvert lægri en réttindakennara og hefur svo verið á öllu tímabilinu. Haustið 2016 var meðalaldur kennara með kennsluréttindi 47,3 ár en meðalaldur kennara án kennsluréttinda 38,8 ár.“

Á þessu línuriti Hagsstofunnar má sjá þróun þegar litið er til aldursskiptingar grunnskólakennara.
Meðfylgjandi mynd sýnir aldurskiptingu starfsfólks við kennslu. Kennurum undir þrítugu fækkar. Hins vegar fjölgar kennurum sem eru 50 ára og eldri úr 24 prósentum haustið 1998 í rúm 41 prósent haustið 2016. Á sama tíma fjölgaði svo kennurum sem eru 60 ár og eldri úr tæpum 6 prósentum í rúm 14 prósent haustið 2016.

Þá greinir Hagstofan jafnframt frá því að kennarar án kennsluréttinda voru tæp 6 prósent starfsfólks við kennslu haustið 2016.

„Á árunum 1998-2008 var hlutfall starfsfólks við kennslu í grunnskólum landsins, sem var án kennsluréttinda, á bilinu 13-20%. Hlutfallið lækkaði eftir hrun um allt land og fór lægst í 4,1% haustið 2012. Síðan 2012 hefur kennurum án kennsluréttinda fjölgað ár frá ári og voru 5,6% haustið 2016. Þá voru 272 starfsmenn við kennslu án kennsluréttinda og hafði fjölgað um 11 frá árinu áður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×