Erlent

Mugabe sagður stjórna úr sjúkrarúmi

Samúel Karl Ólason skrifar
Robert Mugabe, forseti Simbabwe.
Robert Mugabe, forseti Simbabwe. Vísir/EPA
Hinn 93 ára gamli forseti Simbabwe, Robert Mugabe, hefur verið sakaður um stjórna landinu frá sjúkrarúmi í Singapore. Hann er nú staddur þar vegna læknismeðferðar og er það sú þriðja á árinu. Stjórnarandstaða landsins hefur brugðist reið við ferðum forsetans, sem hafa kostað sitt.

Samkvæmt frétt Guardian varði Mugabe rúmlega 50 milljónum dala í ferðalög í fyrra. Það er rúmlega tvöföld sú upphæð sem varið var í uppbyggingu heilbrigðiskerfis landsins. Þá var 30 milljónum varið í rekstur þings landsins og 32 milljónum í rekstur utanríkisráðuneytis Simbabwe.

Talsmaður stjórnarandstöðunnar sagði hagsmuni ríkisins hafa verið lagða til hliðar þegar forsetinn væri í Singapore og það væri í raun orðið heimili hans.

Mugabe hefur lengi verið umdeildur forseti og er elsti þjóðarleiðtogi Afríku. Grace Mugabe, eiginkona hans, sagði fyrr á árinu að hann ætti að bjóða sig fram í næstu kosningum sem fram fara á næsta ári og þá jafnvel ef hann verður dáinn. Hún sagðist tilbúin til þess að ýta líki hans um í hjólastól ef þess þyrfti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×