Erlent

Leiðtoginn sagður látinn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Abu Bakr al-Baghdadi er talinn af.
Abu Bakr al-Baghdadi er talinn af. Vísir/AFP
Svo virðist sem Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki (ISIS), sé fallinn frá. Frá þessu greina fjölmiðlar í Írak.

Í viðtali við Al Sumaria fréttastofuna hélt ónafngreindur heimildarmaður því fram. Sagði heimildarmaðurinn að banni við því að vígamenn ISIS töluðu um fráfall leiðtogans hefði nú verið aflétt.

Þá héldu samtökin Syrian Observatory for Human Rights því fram í gær að þau byggju yfir staðfestum upplýsingum um að Baghd­adi væri fallinn frá. Reuters, sem greindi frá, gat þó ekki staðfest frásögn samtakanna.

„Við höfum fengið staðfestar upplýsingar frá leiðtogum ISIS í austurhluta Deir al-Zor,“ sagði Rami Abdulrahman, forsprakki samtakanna, við Reuters.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem fregnir af andláti hryðjuverkaleiðtogans berast. Hins vegar segir í frásögn Reuters að Syrian Observ­atory hafi á sér gott orðspor fyrir að segja rétt frá þróun mála í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi sem ISIS tekur þátt í. Abdulrahman sagðist þó ekki vita hvenær Baghdadi hafi látist.

Yfirvöld Íraka og Kúrda hafa ekki staðfest fregnirnar og þá sagðist bandaríska varnarmálaráðuneytið ekki búa yfir upplýsingum sem staðfestu þær. Fjölmiðlar á bandi ISIS og samfélagsmiðlareikningar meðlima samtakanna hafa heldur ekki flutt fréttir af mögulegu andláti leiðtogans.

Í júní greindi rússneska varnarmálaráðuneytið frá því að Baghdadi hefði hugsanlega látið lífið í loftárás Rússa á sýrlensku borgina Rakka. Það hefur þó ekki enn verið staðfest.

Ef Baghdadi er látinn í raun og veru markar andlát hans kaflaskil fyrir ISIS og væri andlát hans mikið áfall fyrir samtökin sem töpuðu nýlega orrustunni um íröksku borgina Mósúl. Þar lýsti Baghdadi einmitt yfir stofnun kalífadæmis árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×