Erlent

Elísabet II í öllu betra skapi við komu Spánarkonungs en Elísabet I við innrás Spánverja

Heimir Már Pétursson skrifar
Spánarkonungur kyssir hér hönd Bretadrottningar við heimsóknina í dag.
Spánarkonungur kyssir hér hönd Bretadrottningar við heimsóknina í dag. vísir/getty
Það var mikið um konunglegar dýrðir í Lundúnum í dag þegar spænsku konungshjónin komu í opinbera heimsókn til Bretlands. Elísabet önnur var öllu hýrari á brá en nafna hennar Elísabet fyrsta var fyrir tæplega 430 árum þegar Spánverjar stefndu risaflota norður í höf til að gera innrás í England.

Samskipti Spánverja og Breta eru með mun skárra móti nú en þegar Hinrik VII sleit hjónabandi sínu við Katrínu af Aragon, dóttur Isabellu I og drottningar Spánar og Ferdinand II af Aragon,  árið 1531 í andstöðu við Clement VII páfa sem leiddi síðar til stofnunar Ensku biskupakirkjunnar.

Ekki skánaði samband ríkjanna þegar Spánverjar sendu 130 skipa flota til að gera innrás í England í ágúst 1588 í tíð Elísabetar I dóttur Hinriks VIII, þar sem Englendingar höfðu sigur. Ári síðar sendi Elísabet síðan flota til Spánar í hefndarskyni sem beið þar mikinn ósigur.

En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Það var öllu til flaggað í Lundúnum í dag þegar Felipe VI konungur Spánar og Letizia drottning komu í opinbera heimsókn til Bretlands. Elísabet II og Filip prins voru í sólskinsskapi þar sem þau tóku á móti spænsku konungshjónunum ásamt Karli Bretaprins og Kamillu eiginkonu hans.

Í þetta skipti ógnaði lífvörður Englandsdrottningar ekki Spánarkonungi heldur stóð heiðursvörð fyrir hina tignu gesti. Að lokinni athöfn var riðið af stað í viðhafnarvögnum frá miðborg Lundúna; Elísabet drottning og Felipe konungur saman í vagni og Filip prins og Letizia drottning á hæla þeirra. Ekki skorti á að óbreyttur almúginn hefði gaman af öllu saman þegar hátignirnar riðu hjá í átt að Buckingham höll og veifuðu til lýðsins.

Þegar í höllina var komið bauð hin vinsæla og virðulega Elísabet inn í kaffi og með því. Ekki er ólíklegt að staða nýlendunnar Gíbraltar á Spáni eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verði rædd á bakvið tjöldin, en um þær viðræður fáum við sauðsvartur almúginn ekkert að vita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×