Erlent

Hvetja fólk til þess flytja húsgögn ekki í lestum

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn var sektaður fyrir að reyna að flytja ísskáp í lest og var sendur á brott með ísskápinn.
Maðurinn var sektaður fyrir að reyna að flytja ísskáp í lest og var sendur á brott með ísskápinn.
Fyrirtækið Queensland Rail birti í vikunni myndband sem hefur vakið nokkra furðu í Ástralíu. Þar má sjá tvo menn reyna að flytja ísskáp og sófa með lestum fyrirtækisins. Það mun þó vera bannað að gera slíkt, en birting myndbandsins er liður í átaki fyrirtækisins í að fá fólk til að haga sér betur um borð í lestum.

Samkvæmt ABC News í Ástralíu var maðurinn með ísskápinn sektaður um 252 ástralska dali fyrir tilraunina. Fréttamaður ABC var fyrir tilviljun staddur á lestarstöðinni í apríl þegar maðurinn reyndi að ferja ísskápinn og deildi hann myndum af því á Twitter.



Manninum með sófann virðist þó hafa tekist ætlunarverk sitt, en á myndbandinu má sjá hvernig hann tekur sófann út úr lest og virðist hafa lokið ferð sinni. Hann finnur svo innkaupakerru til þess að flytja sófann áfram.

Talskona lestafyrirtækisins segir að hugsa verði til annarra farþega og að lestirnar séu ætlaðar fólki, ekki ísskápum og sófum. Hún sagði þó að eitt það skrítnasta sem hún vissi til að hefði verið tekið um borð í lestir fyrirtækisins væri sláttuvél. Einnig hefði glerauga fundist í einni lest og jafnvel útihurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×