Gagnrýni

Söngkonan geiflaði sig og gretti

Jónas Sen skrifar
Guðrún Jóhanna var listrænn stjórnandi tónleikanna og kom líka fram í nokkrum atriðum.
Guðrún Jóhanna var listrænn stjórnandi tónleikanna og kom líka fram í nokkrum atriðum. Vísir/Anton Brink

Tónlist
Söngtónleikar
Tónlist eftir Jórunni Viðar, Leonard Bernstein, Claudio Monteverdi, Leo Delibes og fleiri. Flytjendur: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Dísella Lárusdóttir. Guja Sandholt, Francisco Javier Jáuregui, Hrönn Þráinsdóttir og börn undir stjórn Þórdísar H. Kristjánsdóttur og Hildar G. Þórhallsdóttur.
Hafnarborg
Sunnudaginn 9. júlí

Ein fyndnasta aría óperubókmenntanna er Glitter and be Gay eftir Leonard Bernstein. Þar er gert grín að nokkrum þekktum aríum, sérstaklega þeirri sem kennd er við næturdrottninguna úr Töfraflautunni eftir Mozart.

Arían er gríðarlega erfið og flokkast undir svokallaðan koloratúr, sem einkennist af hröðum tónahlaupum, trillum og stökkum upp eða niður tónstigann. Á lokatónleikum Sönghátíðar í Hafnarborg á sunnudaginn söng Dísella Lárusdóttir m.a. þessa aríu og gerði það prýðilega.

Einn og einn tónn hefði að vísu mátt vera nákvæmari, en í heild var arían kröftug og glæsileg, þétt og hnitmiðuð. Tónlistin krefst ýktra leikrænna tilburða, og Dísella náði þeim með afburðum vel, geiflaði sig og gretti, sem skilaði sér í mikilli kátínu tónleikagesta.

Önnur söngkona, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran, var listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Þetta var í fyrsta sinn sem hátíðin var haldin. Áður hefur Guðrún Jóhanna stjórnað Kammerhátíðinni á Kirkjubæjarklaustri og gert það af röggsemi og fagmennsku.

Hátíðin nú samanstóð af tónleikum þekktra söngvara, en einnig fóru fram söngnámskeið fyrir leikmenn og líka fyrir börn. Námskeiðin fyrir börnin voru haldin af Þórdísi Heiðu Kristjánsdóttur og Hildi Guðnýju Guðmundsdóttur og var afraksturinn sýndur á tónleikunum.

Börnin sungu Óðinn til gleðinnar úr níundu sinfóníu Beethovens auk annarra laga. Þau munu upphaflega hafa haldið að Óðurinn væri þjóðsöngur Íslendinga. Sá misskilningur varð vegna þess að alþekkt stefið var leikið aftur og aftur í tengslum við EM í sjónvarpinu í fyrra. Söngur barnanna var bjartur og fallegur, þrunginn lífi og einlægni.

Guðrún Jóhanna kom fram í nokkrum atriðum á tónleikunum. Hún söng fyrst nokkur íslensk þjóðlög, og gerði það af viðeigandi tilfinningu. Önnur íslensk lög fylgdu í kjölfarið, en útlensk tónlist eftir hlé var enn öflugri í meðförum hennar, bæði Pur ti miro úr Krýningu Poppeu­ eftir Monteverdi og Blómadúettinn frægi úr Lakmé eftir Delibes. Þar naut falleg röddin sín til fulls.

Dísella söng með Guðrúnu Jóhönnu síðarnefnda dúettinn en Guja Sandholt þann fyrri. Guja söng líka af aðdáunarverðum krafti og tæknilegu öryggi nokkur lög eftir Jórunni Viðar. Síðasta lagið, Vökuró, sem Björk Guðmundsdóttir gerði heimsfrægt, var einkar hrífandi í meðförum Guju. Það var innilegt, brothætt og angurvært; yfir því var draumkennd, nostalgísk stemning sem var afar sannfærandi.

Hrönn Þráinsdóttir lék skýrt og af yfirvegun á píanóið. Eiginmaður Guðrúnar Jóhönnu, Francisco Javier Jáuregui, spilaði líka ágætlega á gítar, m.a. í íslensku þjóðlögunum. Þau voru einmitt útsett af honum af miklu næmi og smekkvísi. Þetta var skemmtileg stund.

Niðurstaða: Glæsilegir tónleikar með mögnuðum söng og flottri tónlist.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira