Erlent

Lögregla skaut niður mann í Kaupmannahöfn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla í Kaupmannahöfn var kölluð út snemma í morgun vegna atviksins. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögregla í Kaupmannahöfn var kölluð út snemma í morgun vegna atviksins. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Lögregla í Kaupmannahöfn skaut mann í mjöðmina í norðvesturhluta borgarinnar snemma í morgun. Þá var sprengjusveit kölluð út á svæðinu vegna grunsamlegrar tösku, sem maðurinn benti sjálfur á, í bílnum. Lögregla hefur afgirt svæðið og ekki er lengur talin hætta á ferðum.

Samkvæmt frétt danska dagblaðsins Jyllandsposten barst lögreglu tilkynning snemma í morgun um að maður sæti í bíl í norðvesturhluta borgarinnar og svæfi. Þá fékk lögregla síðar upplýsingar, frá manninum sjálfum, um að í bílnum gæti verið taska, í hverri gæti leynst eitthvað „hættulegt.“ Þegar lögregla mætti á staðinn hitti hún fyrir manninn, sem síðar varð fyrir skoti lögreglu.

Þá sauð fljótt upp úr aðstæðum á vettvangi, maðurinn dró fram byssu og lögregla skaut á hann. Maðurinn tilkynnti svo um töskuna í bílnum en dró síðar fullyrðingar sínar til baka. Sprengjusveit var því kölluð út sem rannsakaði málið.

Skotið hafnaði í mjöðm mannsins en ekki er hægt að gefa neitt upp um ástand hans að svo stöddu. Hann var fluttur á sjúkrahús. Þá var heldur ekki hægt að veita upplýsingar um nafn mannsins en málið er nú í rannsókn.

Frétt og fyrirsögn hafa verið uppfærðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×