Erlent

Kynþáttahatari á AirBnB sektaður fyrir að neita að hýsa asískan gest

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dyne Suh setti myndband á Youtube þar sem hún sagði frá því sem gerst hafði með bókun hennar á AirBnB.
Dyne Suh setti myndband á Youtube þar sem hún sagði frá því sem gerst hafði með bókun hennar á AirBnB.
AirBnB-gestgjafi sem mismunaði asískum gesti á grundvelli þess að hann væri frá Asíu hefur verið sektaður um 5.000 dollara og sagt að fara á námskeið í asísk-amerískum fræðum.

Tami Barker afbókaði Dyne Suh og sendi henni í kjölfarið eftirfarandi skilaboð:

„Eitt orð segir allt. Asísk.“

Að því er fram kemur á vef BBC var sektin lögð á Barker á grundvelli nýs samkomulags á milli AirBnB og Kaliforníuríkis sem snýr að jöfnu aðgengi allra að húsnæði. Þá þykja rannsóknir gefa til kynna að sumir eigi erfiðara með að bóka herbergi eða íbúðir í gegnum AirBnB vegna kynþáttar síns.

Barker sendi Suh skilaboð í gegnum AirBnB-appið rétt áður en hún átti að koma í húsið í apríl síðastliðnum. Í einum þeirra sagði hún að hún myndi ekki leigja Suh þó að hún væri síðasta manneskjan á jörðinni. Í öðrum skilaboðum sagði hún:

„Ég mun ekki leyfa útlendingum að skipa þessari þjóð fyrir. Þess vegna erum við með Trump.“

Eftir að Barker hafði afbókað Suh setti Suh inn tilfinningaþrungið myndband á Youtube.

„Það særir mig að eftir að hafa búið í Bandaríkjunum í 23 ár, þá gerist þetta. Það skiptir engu máli hversu vel ég kem fram við aðra, ef þú ert asísk þá ertu annars flokks manneskja. Fólk getur komið fram við þig eins og rusl.“

Lögmaður Barker sagði að hún sæi eftir hegðun sinni og kvaðst telja að eitthvað jákvætt gæti komið út úr refsingu hennar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×