Erlent

Hafna gagnrýni vegna andláts Xiaobo

Samúel Karl Ólason skrifar
Andófsmaðurinn, sem hafði verið að afplána ellefu ára fangelsisdóm fyrir undirróðursstarfsemi dó á sjúkrahúsi í Kína sextíu og eins árs að aldri.
Andófsmaðurinn, sem hafði verið að afplána ellefu ára fangelsisdóm fyrir undirróðursstarfsemi dó á sjúkrahúsi í Kína sextíu og eins árs að aldri. Vísir/EPA
Kínverjar hafa hafnað gagnrýni sem á þeim dynur nú víðs vegar að þess efnis að þeir hafi ekki leyft Nóbelshafanum Liu Xiaobo að yfirgefa heimaland sitt og leita sér lækningar við lifrarkrabbameininu sem dró hann til dauða í gær. Andófsmaðurinn, sem hafði verið að afplána ellefu ára fangelsisdóm fyrir undirróðursstarfsemi dó á sjúkrahúsi í Kína sextíu og eins árs að aldri.

Nóbelsnefndin hefur til að mynda tekið þátt í gagnrýninni og segir í yfirlýsingu frá henni að kínversk stjórnvöld beri mikla ábyrgð á dauða hans. Kínverjar segja hins vegar á móti að um innanríkismál sé að ræða sem komi utanaðkomandi aðilum ekki við og að gagnrýnin sé óviðeigandi.

Lítið sem ekkert hefur verið sagt frá fráfalli Xiaobo í fjölmiðlum í Kína, samkvæmt frétt BBC. Þær fáu fréttir sem hafa verið birtar eru flestar á ensku og í einnig þeirra, frá Global Times, segir að Xiaobo hafi verið „fórnarlamb“ og hann hafi verið „afvegaleiddur af vestrinu“.

Þá virðist sem að umræður um Xiaobo á samfélagsmiðlum hafi verið fjarlægðar af yfirvöldum.

Vinum hans hefur verið skipað að halda ekki minningarathafnir og heimildarmaður BBC segir að einhverjir vinir hans hafi þegar verið handteknir.

Liu Xia, eiginkona Xiaobo, er í stofufangelsi í Kína, en ríki eins og Þýskaland, Bretland, Frakkland og Bandaríkin hafa nú farið fram á að henni verði sleppt og leyft að fara til þess lands sem hún vill. Yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, Zeid Ra‘ad Al Hussein, segir einnig að hún eigi að njóta ferðafrelsis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×