Innlent

Minjar á Eyrarbakka einstakar um sögu verslunar á Íslandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fornleifarannsókn er hafin á Eyrarbakka þar sem kanna á verslunarsögu staðarins, sem spannar allt aftur til fyrstu alda Íslandsbyggðar. Fjallað var um verkefnið í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan, en þar var rætt við Ágústu Edwald Maxwell fornleifafræðing og Magnús Karel Hannesson, síðasta oddvita Eyrarbakkahrepps. 

Hópur enskra fornleifafræðinga er að draga jarðsjá fram og til baka um aðalverslunarsvæði Eyrarbakka til forna en verkefnið er undir stjórn Ágústu Edwald Maxwell fornleifafræðings. Þannig á að fá mynd af þeim rústum sem þar leynast undir og í framhaldi af því er áformað að grafa könnunarskurði.

Magnús Karel Hannesson, síðasti oddviti Eyrarbakkahrepps.Stöð 2/Einar Árnason.
Síðasti oddviti Eyrbekkinga, Magnús Karel Hannesson, segir að Eyrarbakki hafi snemma á öldum orðið innflutningshöfn biskupsstólsins í Skálholti. Allt frá því um 1100 og fram yfir 1900 hafi Eyrarbakki verið aðalverslunarstaður Suðurlands. Líkan af gömlu verslunarhúsum dönsku kaupmannanna gefur hugmynd um hvað verslunin var umfangsmikil. 

Ágústa Edwald segir Eyrarbakka einstakan á landsvísu vegna verslunarsögunnar, í gegnum einokun og til verslunarfrelsis og frá sjálfþurrft og vöruskiptum til kapitalískra verslunarhátta. Þegar hún er spurð hversu langt aftur í tímann hún ætli að grafa vonast Ágústa til að komast að minnsta kosti niður fyrir einokunartímann.

Enskir fornleifafræðingar draga jarðsjá yfir rústasvæði Eyrarbakkaverslunar.Stöð 2/Einar Árnason.
Í þættinum Ísland í sumar á Stöð 2 næstkomandi þriðjudag, klukkan 19.10, verður fjallað nánar um Eyrarbakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×