Innlent

Smálánafyrirtæki sektuð um tíu milljónir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Neytendastofa hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að viðskiptavinir fyrirtækisins hefðu verið krafðir um mun hærri kostnað vegna lántöku en heimilt var.
Neytendastofa hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að viðskiptavinir fyrirtækisins hefðu verið krafðir um mun hærri kostnað vegna lántöku en heimilt var. vísir/stefán
Neytendastofa hefur lagt tíu milljón króna stjórnvaldssekt á E-content sem er rekstraraðili smálánafyrirtækjanna Kredia, Smálána, 1909, Múla og Hraðpeninga fyrir brot gegn lögum um neytendalán. Stofnunin hafði áður tekið ákvörðun um að háttsemi fyrirtækjanna bryti gegn lögum.

Hálf milljón á dag þar til sektin er greidd

E-content fær fjórtán daga til þess að greiða sektina. Eftir það verða lagðar dagsektir á fyrirtækið sem nema 500 þúsund krónum á dag.

Neytendastofa hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að viðskiptavinir fyrirtækisins hefðu verið krafðir um mun hærri kostnað vegna lántöku en heimilt var. Sú ákvörðun var kærð til áfrýjunarnefndar neytendamála sem staðfesti hana í meginatriðum.

Stofnunin taldi að kaupverð bóka sem smálánafyrirtækin selja, og neytendur þurfa að kaupa til þess að eiga kost á láni, sé í raun kostnaður af láninu. Það leiði til þess að heildarkostnaður af láni gefi árlega hlutfallstölu kostnaðar sem fari langt umfram leyfilegt hámark.

Þá hafi í ákvörðuninni jafnframt verið tekið að því að hvorki væru veittar fullnægjandi upplýsingar í stöðluðu eyðublaði sem veita á fyrir samningsgerð, né í lánssamningi.

Neytendastofa taldi fyrirtækið ekki sýna fram á að farið hafi verið að ákvörðunum stofnunarinnar. Var stjórnvaldssekt lögð á fyrirtækið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×