Fótbolti

UEFA heldur að Dagný sé nýbökuð þriggja barna móðir

Kolbeinn Tumi Daðason í Tilburg skrifar
Dagný verður í Bandaríkjunum er stöllur hennar spila við Brasilíu.
Dagný verður í Bandaríkjunum er stöllur hennar spila við Brasilíu. vísir/anton
Fjallað er um Evrópumótið í knattspyrnu á heimasíðu Knattspyrnusambands Evrópu. Þar er meðal annars hitað upp fyrir leik Frakka og Íslendinga sem fram fer í Tilburg í kvöld. Fjórar staðreyndir eru bornar á borð fyrir lesendur en ein vekur athygli hjá þeim sem til þekkja hjá íslenska landsliðinu.

Liðin mættust vissulega í fyrsta leik riðilsins á EM 2009 og Frakkar unnu 3-1. Ísland skoraði vissulega fyrsta markið í leiknum. Þá hafa liðin mæst níu sinnum, Frakkar unnið sjö, gert eitt jafntefli og tapað einu sinni. En fjórða staðreyndin er út úr kortinu.

Þar segir að Dagný Brynjarsdóttir sé þriggja barna móðir. Ekki nóg með það heldur sé hún að fara að spila á EM aðeins fimm mánuðum eftir að þriðja barn hennar fæddist. 

Brynjarsdottir er klár í slaginn eftir að hafa eignast sitt þriðja barn fyrir fimm mánuðum.
Svo virðist sem blaðamaður UEFA sé ekki aðeins að rugla Dagnýju saman við einn heldur tvo leikmenn íslenska liðsins. Annars vegar Hörpu Þorsteinsdóttur, sem eignaðist sitt annað barn fyrir fimm mánuðum, og Málfríði Ernu Sigurðardóttur sem er eina þriggja barna móðirin í íslenska liðinu.

Svo sem ekki leiðum að líkjast fyrir Dagnýju sem verður að öllum líkindum á miðjunni með Söru Björk Gunnarsdóttur í leiknum gegn Frökkum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×