Innlent

Stefna á að ljúka viðgerð á neyðarlúgu í Faxaskjóli á miðnætti

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Unnið er hörðum höndum að því að gera við neyðarlúguna og vonast er til að vandamálið verði úr sögunni í kvöld.
Unnið er hörðum höndum að því að gera við neyðarlúguna og vonast er til að vandamálið verði úr sögunni í kvöld. Vísir/Eyþór
Búist er við því að viðgerð á neyðarlúgu í Faxaskjóli ljúki á miðnætti í kvöld ef allt gengur eftir. Inga Dóra Hrólfs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Veitna ohf, staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Neyðarlúgan hefur verið opin með hléum í átján daga og miðað við daginn í dag renna um 15 þúsund rúmmetrar af óhreinsuðu skólpi í sjóinn.

Inga Dóra segir að verið sé að huga að breytingum á skólpkerfinu á höfuðborgarsvæðinu en engar hugmyndir séu þó fast mótaðar. Þetta sé allt á byrjunarstigi.

„Það yrði gríðarlega kostnaðarsamt að gera það þannig að það færi aldrei óhreinsað skólp í sjóinn,“ segir Inga Dóra. Hún nefnir að hins vegar sé verið að skoða hugmyndir að minniháttar breytingum í Faxaskjóli eða í sambærilegum stöðvum sem séu ekki jafn kostnaðarsamar. Þær breytingar gætu orðið til þess að ekki þyrfti að hleypa út skólpi þegar að viðgerð stendur yfir.

Hún nefnir að það hafi áður komið til umræðu að endurskoða kerfið en nú hafi fólk fyrir alvöru farið að skoða þetta eftir skólpmengunina sem hófst í júní.

Inga Dóra segir jafnframt að vel hafi tekist að þrífa fjörurnar eftir mengunina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×