Fastir pennar

Einangrun

Magnús Guðmundsson skrifar

Það kemur tæpast nokkrum á óvart að Ísland stendur sig langverst af Norðurlöndunum þegar kemur að aðgerðum stjórnvalda gegn ójöfnuði samkvæmt nýrri skýrslu frá Oxfam. Að minnsta kosti ekki þeim sem þurfa að lifa við þennan ójöfnuð frá degi til dags, þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda hverju sinni, og er gert að sætta sig við að njóta ekki mannréttinda vegna þess að það er talið kosta of mikið.

Þessi tíðindi koma Áslaugu Ýr Hjartardóttur eflaust ekki á óvart. Áslaug Ýr er daufblind og nýverið hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur beiðni hennar til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra að greitt yrði fyrir túlkaþjónustu fjögurra túlka vegna sumarbúða sem hún hyggst sækja í Svíþjóð í sumar. Sumarbúðirnar eru sérstaklega fyrir daufblind ungmenni á Norðurlöndum en sænska ríkið greiðir fyrir bæði uppihald og ferðakostnað túlkanna. Íslenska ríkið hefði einvörðungu þurft að greiða launakostnað túlkanna en því var engu að síður hafnað á þeirri forsendu að kostnaðurinn myndi nema um 18% af ráðstöfunarfé Samskiptamiðstöðvarinnar á næstu þremur mánuðum.

Þetta er auðvitað hátt hlutfall af ráðstöfunarfé en það segir okkur auðvitað fyrst og fremst hversu spart er farið með fjármagn til mannréttinda fatlaðs fólks á Íslandi. Það fjármagn virðist ekki ráðast af þörf heldur skilgreindu þolmarki stjórnvalda hverju sinni eftir árferði. Héraðsdómur fellst því á rök ríkisins fyrir því að það í þessu tilviki sé svo lítið til ráðstöfunar að stór úthlutun bitni á öðrum. Fyrir vikið og í nafni fjársvelts velferðarkerfis eru mannréttindi Áslaugar Ýrar sett í annað sæti. Þetta er óneitanlega lýsandi fyrir þá staðreynd að Ísland er í tólfta sæti listans um aðgerðir stjórnvalda gegn ójöfnuði en Svíþjóð í því fyrsta. Svíar drógu heldur ekki lappirnar þegar kom að því að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var undirritaður árið 2007. Það tók okkur Íslendinga hins vegar tæp tíu ár og samningurinn bíður enn lögfestingar.

Fullgildingin á síðasta ári var vissulega stórt skref en mál Áslaugar Ýrar sýnir okkur svo ekki verður um villst að það dugar ekki til. Á meðal grundvallaratriða samningsins má nefna að með honum undirgengst ríkið þá skyldu að banna mismunun, stuðla að samfélagsþátttöku allra og jöfnum tækifærum og bera virðingu fyrir fjölbreytileika fólks og mannlegum margbreytileika. Þrátt fyrir fullgildinguna er út frá máli Áslaugar Ýrar og fleiri málum erfitt að sjá annað en að íslenska ríkið hafi ekki í hyggju að framfylgja þessum skyldum. Þvert á móti þekkja flestir öryrkjar á Íslandi það af eigin raun að þurfa sífellt að berjast fyrir réttindum sínum, samfélagsþátttöku og mannvirðingu.

Áslaug Ýr tók lán fyrir launakostnaði túlkanna sem íslenska ríkið hefði átt að sjá sóma sinn í að greiða og hún ætlar að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Það er óskandi samfélagsins vegna að þar verði henni dæmdur sigur og íslenska ríkið dæmt til að hætta að dæma fatlað fólk til félagslegrar einangrunar.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.