Fótbolti

„Lélegasta“ lið íslenska riðilsins fagnaði sigri í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nina Burger fagnar sigurmarki sínu.
Nina Burger fagnar sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Austurríki átti að vera veikasta liðið í íslenska riðlinum á EM kvenna í fótbolta í Hollandi en þær afsönnuðu það strax í fyrsta leik.

Austurríki vann 1-0 sigur á Sviss í fyrsta leiknum í C-riðli í dag en sigurmarkið kom snemma leiks.

Svisslendingar voru manni færri síðasta hálftíma leiksins en tapið er mikið áfall fyrir svissnesku stelpurnar sem mæta Íslandi næst.

Austurísku stelpurnar voru þarna að spila sinn fyrsta leik á stórmóti frá upphafi en þetta var einnig fyrsti leikur Sviss á EM þótt þær svissnesku hafi komist áður á HM.

Nina Burger, fyrirliði og markahæsti leikmaður austurríska landsliðsins, var ekki lengi að komast á blað á sínum fyrsta stórmóti.

Burger skoraði með laglegu skoti á 15. mínútu eftir flotta skyndisókn og frábæra stoðsendingu frá Söruh Zadrazil.

Austurríska liðið var þá nýbúið að endurheimta Lisu Makas inn á völlinn en hún hafði fengið höfuðhögg í upphafi leiks. Makas kom aftur inn með umbúðir á hausnum og skömmu síðar náð austurríska liðið þessari frábæru sókn sem skilaði markinu.

Nina Burger kom líka mikið við sögu á 60. mínútu þegar hin svissneska Rahel Kiwic fékk að líta rauða spjaldið fyrir að toga Burger niður þegar hún var að sleppa í gegn.

Sarah Puntigam átti ágætt skot úr aukaspyrnunni sem var dæmd en Gaëlle Thalmann varði vel í markinu.

Svissneska liðið fann síðan engar leiðir framhjá þéttri vörn Austurríkis það sem eftir lifði leiks og þær austurrísku fögnuðu gríðarlega í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×