Skoðun

Æskilegt að forseti Íslands leiðbeini Alþingi

Svanur Kristjánsson skrifar
Sumir ráðamenn virðast halda að hægt sé að breyta valdi forseta og ábyrgð á náðun og almennri uppgjöf saka einfaldlega með lagabreytingum. Slíkur málflutningur byggir á vanþekkingu og er til þess fallinn að draga athyglina frá kjarna málsins.

Vald og ábyrgð forseta Íslands í slíkum málum er samkvæmt 29. gr. stjórnarskrárinnar:

„Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó ekki leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.“

Ákvæðið er byggt á eldri ákvæðum stjórnarskrár um náðunarvald Danakonungs. Á grundvelli úreltra og óljósra ákvæða um vald og ábyrgð forseta Íslands er staða hans í stjórnskipun landsins mjög óviss. Stundum er vald og ábyrgð forseta Íslands talin vera mikil eins og árið 1952 þegar 27.364 landsmenn undirrituðu áskorun til forseta Íslands, Ásgeirs Ásgeirssonar, um að veita almenna sakaruppgjöf til þeirra sem dæmdir voru vegna atburða á Austurvelli 30. mars 1949. Núna bendir hver ráðamaður á annan varðandi ábyrgð á umdeildri uppreist æru dæmds kynferðisafbrotamanns. Forseti Íslands bendir á innanríkisráðherra sem aftur bendir á starfsfólk innanríkisráðuneytis !

Slík stjórnarskrá með tilheyrandi ábyrgðarleysi æðstu valdhafa er uppskrift að sífelldum deilum um grund­vallar­atriði stjórnskipunar og réttarfars.

Þjóðkjörinn forseti Íslands þarf að gegna lykilhlutverki við uppbyggingu íslenska lýðveldisins. Að mínu mati er mjög æskilegt að forseti Íslands skori á Alþingi að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 þegar 67% kjósenda samþykktu meginatriði Nýju stjórnarskrárinnar sem m.a. afmarkar vald og ábyrgð forseta Íslands. Eina leiðin til að skýra stöðu og hlutverk forseta Íslands í stjórnskipun landsins er grundvallarbreyting á stjórnarskrá. Í lýðræðisríki á enginn valdsmaður að hafa vald án ábyrgðar. Raunverulegt lýðveldi verður ekki byggt á 19. aldar stjórnarskrá konungsríkis.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×