Skoðun

Ill meðferð katta á Íslandi og fleira er dýravernd varðar

Árni Stefán Árnason skrifar
Ömurleg tíðindi, sem eru nú að berast um úthýsingu katta og ótímabæra fjölgun kettlinga má segja að hafi verið nokkuð fyrirsjáanleg.

Margir eru þeirrar skoðunar að vaxandi agaleysi, hrjái þjóð vora á ýmsum sviðum og kemur það oft hart niður á velferð dýra. Nýleg ársskýrsla Matvælastofnunar vegna árins 2016  um ástandið í velferð dýra á Íslandi er vitnisburður um að þrátt fyrir að réttur þeirra til velsældar, sé nánast gulltryggður í lögum, sem tóku gildi í upphafi árs 2014 þá hafi mistekist eða ekki verið áhugi hjá valdhöfum og mörgum umráðamönnum dýra að ná því markmiði, sem lögin boða. Brúneggjamálið og nú kattamálið eru skýr dæmi um slíkt. Í virku ríki þar, sem borin er virðing fyrir lögum og menn hafa, þó ekki sé nema hóflega sjálfs- og umhverfisvirðingu, hefðu þessi mál ekki komið upp. Hérlendis er því, sem fyrr mjög alvarlegt ástand í framkvæmd dýravelferðarlaga.

Staða dýraverndar 2017

En byrjum á byrjuninni lesandum til glöggvunar. Hverjir eiga að tryggja velferð dýra? Fyrst og fremst umráðamenn, almennt nefndir eigendur dýra í skilningi laga. Heppnist það ekki hjá þeim þá hefur Matvælastofnun (MAST) þá skyldu að lögum að tryggja velferð dýra  með virku og óboðuðu eftirliti og úrræðum, sem gildandi lög heimila stofnuninni að beita. Jafnvel sá,  er óaðfinnanlegt dýrahald stundar ætti að þurfa að lúta þessu eftirliti, því ýmsar yfirsjónir má lagfæra með ábendingum frá eftirlitsaðilum. Ekki ólíkt því og að fara með bifreið í skoðun hyggi maður í torfært ferðalag, þar sem reynir á öryggisbúnað bifreiðar o.fl.

MAST hefur ekki verið iðin við eftirlitsstörf sín. Sú ályktun er sanngjörn því alltof oft fáum við fréttir af málum, þar sem dýrahald er komið í alvarlegar ógöngur. Upplýsingastreymi frá MAST um eftirlit sitt er ekkert. Dýravernd kemur öllum Íslendingum við! Ég hef skrifað um það áður að yfirdýralækni ætti að skylda til að halda opinbera dagbók um dýravelferðarmálefni, líkt og forseti lýðveldisins upplýsir um störf sín reglulega.

En hvað er hægt að gera til þess að tíðindi, sem þau, sem landsmenn hafa nú fengið fréttir af um slæma meðferð katta megi lágmarka?

Áberandi áróður heyrist ekki, fræðsla er illa aðgengileg um þetta afmarkaða viðfangsefni.

Dýraverndarsamband Íslands ber sér á brjóst fyrir að standa dyggan vörð um velferð afmarkaðs hóp dýra á Íslandi t.d. með því að rita í lög sín: ,,að beita sér fyrir fræðslu og upplýsingarmiðlu um góða meðferð dýra[...]

Yfirdýralæknir þegir þunnu hljóði þó hafið sé yfir allan vafa hvert hlutverk hans er. Bændur, sem eru vondir við dýr eru verndaðir, þeim er t.d. hlýft við nafnbirtingu og því ógerlegt fyrir neytendur búfjárafurða að sneyða hjá vörum þeirra. Þeir fá máski dagsektir þó brot þeirra hafa varðað, að mati margra lögfræðinga miklu þyngri refsingu. Brúneggjamálið er dæmi um það o.fl. mál.

MAST er á ákveðnum sviðum svo seinvirkt stofnun að það tekur mánuði að fá viðbrögð vegna einfaldra en á stundum mjög alvarlegra ábendinga um illa meðferð dýra. Svo langan tíma að málsmeðferð fer langt framúr öllum tímaviðmiðunum stjórnsýslunnar. Þar tala ég af eigin reynslu með kvörtun til meðferðar hjá Umboðsmanni Alþingis vegna málsmeðferðartíma hjá MAST vegna mjög alvarlegs brot einstaklings á lögum um velferð dýra og ég er aðili að, sem annar af tveimur eigendum þess. - Á ýmsum sviðum er MAST hins vegar með gæðaþjónustu t.d. í innflutningmálum gæludýra, hvar ég hef reynslu og gef því sviði mína hæsta einkunn.

Landbúnaðarráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, æðsta yfirvaldi velferðar dýra virðist einungis umhugað um eitt, uppgang og velferð sjávarútvegs. Henni er þó heimilt þegar henni sýnist að gera athugasemdir við og breyta verklagi innan MAST. Vart hefur núverandi ástand farið framhjá henni. Engin tíðindi berast um afskipti hennar af því, sem ég leyfi mér að nefna endurtekinni handvömm MAST í málaflokknum velferð dýra.

Ástandið, sem upp er komið varðandi offjölgun katta verður ekki tekið til baka en hægt er að lágmarka skaðann t.d. með því að dýravinir sameinist um að veita þessum dýrum kærleiksríkt heimili. Fátt er ánægjulegra en fjölskyldumeðlimir af þessari tegund dýra.

Núverandi ástand og viðbrögð

Núverandi ástand vegna dýraverndar katta er tvíeðlis: Annars vegar er um að ræða ketti, sem skyldir hafa verið eftir í reiðuleysi af eigendum sínum, hins vegar offjölgun.

Ég hika ekki við að segja að þeir kettir, sem auðkenndir hafa verið og finnast á vergangi og eigendur neyta að taka aftur á heimili sín eigi að kæra til lögreglu. Skv. lögum um velferð dýra er það refsivert að skilja ketti eftir í bjargarlausu ástandi en svo kallast það ástand þegar auðkenndur köttur fær ekki lengur inngöngu á heimilis sitt. Ég er ekki refsiglaður en ein viðurkennd  ástæða refsingar er að lýsa yfir vanþóknun á atburði, illri meðferð dýrs. Önnur ástæða fyrir refsiákvæðum er að þau hafi fælniáhrif. - Fæli fólk frá því að gera brotleg við lög.  Ég er á þeirri skoðun að lögregla, fái hún til sín kæru frá MAST  vegna þessara katta, þá eigi hún að krefjast þess að refsiramminn verði fullnýttur í ákæru vegna brota af þessu tagi. Það væri ein leið til þess að knýja fólk til þess að láta af háttalagi, sem þessu. Það er hins vegar annað og umhugsunarvert atriði að MAST skuli vera eini aðilinn, sem kæra má brot á lögum um velferð dýra. Það er brot á tjáningarfrelsi eigenda dýra, hef skrifað um það áður og  endurtek eigi hér.

Offjölgun katta er hinn þátturinn af hinum tveimur framangreindu. Hana má má auðveldlega koma í veg fyrir, með áberandi áróðri og fræðslu. Gott og áberandi starf hefur þar verið unnið af félagsskap sem heitir Villikettir þ.e. að setja hömlur á fjölgun katta með geldingum og ófrjósemisaðgerðum í ríki villikattanna auk þess að bjarga slíkum kettlingum frá ýmsum hremmingum og koma þeim á góð heimili.

Hins vegar er það ámælisvert að hvorugt, þ.e. áróður og fræðsla er fyrir hendi af hálfu þess aðila, Dýraverndarsambands Íslands, sem hefur skyldur að lögum og skv. eigin lögum um þetta efni eins og drepið var á hér að framan. Auðvitað hefur MAST sömu skyldur líka.

Stjórnsýslu dýraverndar verður að taka til endurskoðunar

Þar, sem ég þekki sögu dýraverndar á Íslandi mjög vel, stjórnsýsluna alla frá upphafi þá fullyrði ég að mér hefur sjaldan fundist hún slakari en nú, þó oft hafi hún hreinlega verið ómöguleg. Það þarf að stokka algerlega upp í stjórnsýslu dýraverndar á Íslandi. Því miður hafa valist rangir aðilar í marga þá stóla, sem eiga að sjá um framkvæmd laga um velferð dýra og hafa valdheimildir. 

Málsmeðferðartími MAST í einföldustu dýraverndarmálum fer langt út fyrir öll almenn viðmið stjórnsýslunnar, þar hef ég eigin reynslu. Svo slæma að ég hef neyðst til að kvarta til Umboðsmanns Alþingis yfir háttalagi MAST vegna alvarlegs meints brots á lögum um velferð dýra hvar ég er sjálfur eigandi dýrs og þar með aðili máls.

Öllu framangreindu er hægt að breyta með kraftmiklu hugsjónafólki, sem hefur góða sýn og þekkingu hvar skal bera niður svo árangur náist.


Tengdar fréttir




Skoðun

Sjá meira


×