Erlent

ISIS-liðar króaðir af í Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Harðir bardagar geisa nú í Mosul í Írak þar sem sérsveitir hersins sækja fram gegn vígamönnum Íslamska ríkisins.
Harðir bardagar geisa nú í Mosul í Írak þar sem sérsveitir hersins sækja fram gegn vígamönnum Íslamska ríkisins. Vísir/AFP
Harðir bardagar geisa nú í Mosul í Írak þar sem sérsveitir hersins sækja fram gegn vígamönnum Íslamska ríkisins. Yfirráðasvæði ISIS í borginni hefur stöðugt skroppið saman síðan aðgerðir hersins í borginni hófust fyrir rúmum átta mánuðum. Vígamennirnir hafa nú verið króaðir af í elsta hluta borgarinnar eftir að herinn náði síðustu brúnni yfir Tígrisánna og sótt er að þeim úr þremur áttum.

Með bakið í Tígrisánna eru vígamennirnir sagðir berjast af miklum krafti.

Þröngar götur og gamlar byggingar í elsta hluta borgarinnar hafa gert hernum erfitt fyrir þar sem ISIS-liðar hafa komið fyrir sprengjum og gildrum. Þá hafa þeir komið sér fyrir í sjúkrahúsum í borginni til þess að forðast loftárásir.

Notkun þungavopna hefur verið bönnuð gegn sjúkrahúsum og samkvæmt AFP fréttaveitunni hafa hermenn kvartað yfir því að það hafi gert þeim erfitt að ná tökum á umræddum sjúkrahúsum.

Al Jazeera segir ISIS-liða halda nokkrum smáum íbúðahverfum við ánna. Talsmaður hersins segir að sigur verði tilkynntur á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×