Enski boltinn

Terry og Birkir verða væntanlega samherjar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
John Terry varð fimm sinnum enskur meistari með Chelsea.
John Terry varð fimm sinnum enskur meistari með Chelsea. vísir/getty
John Terry, fyrrverandi fyrirliði Chelsea, skrifar undir samning hjá Aston Villa í dag samkvæmt heimildum Sky Sports.

Samningur hins 36 ára gamla Terrys við Chelsea rann út um mánaðarmótin og honum er því frjálst að semja við hvaða félag sem er.

Terry átti kost á því að leika áfram í ensku úrvalsdeildinni og voru West Brom, Swansea City og Bournemouth öll á höttunum eftir honum. Hann var hins vegar tregur til að spila á móti Chelsea.

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Birmingham City, reyndi einnig að fá Terry en svo virðist sem erkifjendurnir í Aston Villa hafi haft betur í baráttunni um þennan sigursæla leikmann.

Ef að félagaskiptunum verður verður Terry samherji Birkis Bjarnasonar hjá Aston Villa. Hann lék á árum áður með Eiði Smára Guðjohnsen hjá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×